þriðjudagur, febrúar 15, 2005

gekk með systur minni um miðbæ reykjavíkur á sunnudagskvöldið síðasta. við vorum sjávarmegin, gengum niður á höfn og svo upp lindargötuna framhjá og á milli nýbygginganna og niðurrifsins. mældum út svæðin sem á að umturna og röltum í kringum húsin sem verða horfin innan einhverra ára eða mánaða.
að auki ræddum við af miklum ákafa mál málanna hjá miðbæjarbúum, og vonandi fleirum, þessa dagana. ég á eiginlega bágt með að trúa því að einhver hópur fólks hafi komist að þeirri niðurstöðu að það væri sniðugast að rífa hálfan laugaveginn ásamt fleiri stórum hlutum gamla miðbæjarins. væri ekki nær að nota peningana í að gera gömlu húsin upp og laga þau nýju svo að þau komist nær þessum gamlamiðbæjarreykjavíkurstíl?
ég finn að ég verð döpur þegar ég hugsa til svona starfsemi. ég get ekki ímyndað mér hvað fer fram á milli eyrnanna á því fólki sem þykir vænlegast að breyta þessu elsta hverfi borgarinnar í ferkantað nútímahverfi. mig minnir einmitt að í öllum þeim borgum sem ég hef heimsótt eða lesið mér til um sé það einmitt miðbærinn þar sem gamli byggingarstíllin fær að njóta sín, þar sem saga borgarinnar skín í gegnum götumyndirnar, þar sem húsin hafa sál. sál...það er einmitt orðið. gömlu húsin í bænum hafa sál. þau eiga sér sögu og þau eru tengiliður okkar við það sem reykjavík var, og er, en það er lítið sjávarpláss á hjara veraldar. rétt er að þau hafa kannski ekki verið byggð af miklum efnum og víst er ýmislegt sem má lagfæra, en það er einmitt það sem peningarnir ættu að fara í. svona eins og frakkarnir eyða pening í að laga notre dame og hreinsa brýrnar sínar og ríki leggja metnað uppúr að viðhalda fegurð hinna sögulegu bæjarhluta, ættum við að vernda okkar. ekki bara að vernda gömlu húsin heldur ættum við að vernda útlit miðbæjarins, gamla stílinn. það segir mér enginn að öll ný hús verði að vera nútímaleg í útliti og að einhverjum finnist fallegt að klambra saman litlum bárujárnshúsum og póstmódernískum lúxusíbúðum. miðbærinn hefur heldur aldrei snúist um lúxus. lúxus tengist fjármálahverfum og það er í borgartúni. endilega skellið upp lúxusháhýsum með 3 lyftum á hvern íbúa í borgartúninu, nóg er plássið í kringum höfða td. þar mætti aldeilis skella upp skýjakljúfum.
ég legg til að svæðið sem nær frá kirkjugarðinum við suðurgötu og upp að klambratúni og frá reykjavíkurflugvelli niður á höfn, verði endurskipulagt og teiknað upp á nýtt með upprunalegan stíl í huga. þá fengju eigendur þessara húsa greiðslur til þess að bæta og lagfæra og gera upp, eða þá gæti borgin keypt upp þau hús sem eru í niðurníðslu, lagfært þau og notað þau annað hvort sem leiguíbúðir eða undir skrifstofur og aðra starfsemi.

ég finn löngun mína til þess að búa í reykjavík fjara út í hvert skipti sem ég sé nýjan steypuklump í miðbænum eða les um fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. mig langar voða lítið að búa í borg þar sem unnið er markvisst að því að eyða sálinni.

nú spyr ég.... hvað, ef eitthvað, er hægt að gera til að snúa þessari þróun ?
ætli við samlandarnir getum í eitt einasta skipti sýnt nægilega mikinn samhug í verki til þess að koma í veg fyrir yfirgang nýbyggingamafíunnar?

Engin ummæli: