mánudagur, apríl 25, 2005

makinn minn elskulegur er heima að gera fínt fyrir mig svo að ég geti skriðið beint upp í hreint rúm á hreinu heimili eftir vinnu. hann veit nefnilega um lækningamátt hreinleikans, eða kannski frekar um veikindatilfinningarmátt óhreinleikans. hvað sem það nú er sem hann veit um, þá er hann heima að gera fínt svo að mér líði betur við að koma heim. ég er nefnilega lasin í vinnunni og hef það yfir höfuð ansi skítt.
vöðvabólga í hægra herðablaði aftan, höfuðverkur í báðum heilahvelum ofan, beinverkir í beinum efra og neðra og slím og verkur í báðum lungum innri. það er hreint ekki sjón að sjá mig eða heyrn að hlusta á mig.
ástæðan fyrir veru minni hér á vinnustað er sú að ég vinn í hálfgerðu béskotans akkorði alltafhreint og nú er komið að loka viku þriðja síðasta akkorðs og verkefnin mega ekki við upphrönnun. að auki þarf ég að troða framtíð (reglulegum sögnum í framtíð ef ég á að vera nákvæmari), í sauðina þrátt fyrir að sjá takmarkaðan tilgang með troðslunni þar sem skrímsli eiga enga framtíð. það má þó reyna.
en nú er ég bara að vera neikvæð. auðvitað eiga þessar blessaðar rassgatsdúllur fullt af framtíð. það er ég, þessi sem þau kalla miðaldra, sem er á grafarbakkanum.
ég ætti kannski bara að tala í þátíð. allavega þegar ég notast við fyrstu persónu eintölu.

parasetamól hér ég kem.

föstudagur, apríl 22, 2005

hana, nú sannfærði ég prestinn um að feng shui og hugleiðsla trufli samband hennar og guðs ekki nokkurn skapaðan hlut. spurning hvað gnarr eða aðrir strangtrúaðir segðu við því.
pjuff, alveg er ég ekki að kaupa trúarbrögð per sei. trúi ekki á trúarbrögð enda ber orðið með sér brögð og þá á ég ekki við brögð sem finnast af bragðskyninu í munninum heldur þarf að nota bragðaskynið í heilanum til að sjá við svona brögðum.
brögð... skrýtið orð.
talandi um brögð, ég nenni ekki að hafa háværar skoðanir á páfanum. segjum bara sem svo að ég sé jafn fegin að vera ekki kaþólikki og ég er fegin að vera ekki frá júessei.
en nú nenni ég ekki að bölsótast, það er að rembast við að koma sumar og ég þarf að hafa mig alla við til þess að drukkna ekki í vinnuþreytu.
nú fer ég í pollýönnugírinn.
glettilegt summar.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

mig er farið að gruna samsæri.
þannig er nefnilega mál með vöxtum að alltaf þegar ég hugsa um, kem nálægt eða notfæri mér tannlækna, fer allt í skrall í munninum á mér.
mér sýnist sem svo að ég hafi verið brottnumin af geðveikum tannlæknavísindaglæpamönnum í frumbernsku, þeir hafa skipt á heilbrigða tannsettinu mínu og rusli sem þeir gætu grúskað í og lagað að eigin vild, og án þess að foreldrar mínir gerðu sér grein fyrir atvikinu hafi mér verið skilað aftur í vögguna með gómana útlítandi eins og þeir væru bara þarna berir að bíða eftir fyrstu tönninni upp á yfirborðið.
fyrsta merkið um að eitthvað væri að kom þegar ég missti mína fyrstu tönn við eplaát á leikskólanum. börnin sem sátu á móti mér bentu mér á að mig vantaði tönn. því trúði ég ekki fyrr en ég var dregin fyrir framan spegil og mér sýnt gatið. ég hef alla tíð staðið í þeirri meiningu að ég hafi gleypt tönnina, en nú þegar ég er loksins komin með þroska til að leggja saman tvo og tvo geri ég mér grein fyrir að tönnin var að sjálfsögðu brottnumin sem rannsóknargagn fyrir áframhaldandi tilraunastarfsemi í gómum mér.
nema hvað, líður svo og bíður og fátt gerist tíðindavert þar til ég fæ skíðalyftu í andlitið á fjallstoppi í austurríki, aðeins tólf ára að aldri. atvikið leit út sem óheppilegt slys væri, en aftur hef ég tengt saman punktana og séð heildarmyndina. í ferðahópnum okkar var tannlæknir (útsendari eða eftirlitsmaður), og hann róaði foreldra mína með því að brotna tönnin og sú lausa mættu bíða rólegar í rúma viku, eða þar til ég kæmist heim í hendur míns eigins tannlæknis (sem er að sjálfsögðu einn af höfuðpaurunum).
þegar ég komst í hans hendur var tönnin náttúrulega orðin bölvað drasl og ofanáhana var hlaðið meira drasli og foreldrar mínir rukkaðir. allt í samræmi við samsærið.
núnú, svo liðu árin einhvernvegin og hinsegin og ég var svosem ekkert meðvituð um tanntengda atburði þar til ég náði þeim stað í lífinu þar sem börn foreldra sinna þurfa að greiða eigin tannlæknareikninga og sjá sjálf um að koma sér til viðkomandi tannpersónu. þá fyrst fór ég að sjá mynstur það sem hefur staðfest sjálft sig fyrir mér á undanförnum dögum.
þannig er nefnilega mál með vexti að ég veit ekkert hvað ég er með margar fyllingar, en mig er farið að gruna að þær séu sárafáar, nema að þær eru fylltar með einhverju efni sem endist svo stutt að ég þarf endalaust að láta endurnýja þær (fyrir fullt af peningum). í ofanálag eru jaxlar mínir fylltir fjarstýrðu efni (sem tengist móðurstöðinni sem fjarstýrir tanngörðum framleiddum af þeim sjálfum), en fjarstýringin lýsir sér þannig að í hvert sinn sem mér verður hugsað til tannlæknis míns, fer ákveðið ferli í gang og ég missi fyllingu.
í síðustu viku ákvað ég endanlega að sannreyna samsæriskenninguna og hringdi í tanna til að panta tíma. og viti fólk!, samdægurs át ég brauð, var viss um að ég væri með fræ fast í tönninni, kroppaði í það og fékk fyllinguna með. þeir hafa nefnilega séð fyrir því að hafa alltaf nóg af verkefnum í hvert sinn sem ég fer svo að fjárhagur minn flytjist í heilu lagi yfir á fjárhag þeirra.
ef ég hugsa nógu lengi gæti ég jafnvel komist að því að tannlæknar og bakarar séu saman í plotti...

föstudagur, apríl 15, 2005

hananú, nú hafði ég á tilfinningunni að ég hefði verið rosa dugleg að blogga í morgun og væri með þessa fínu færslu á síðu vorri. en þá mundi ég að ég hafði bara skrifað hana í tölvupóstsbréfi. skrambakornið.

sem minnir mig á það að ég er all hrottalega stífluð í hægri nös. makinn tjáði mér í gærkvöldi að legðist ég á vinstri vanga myndi stíflan jafnast út sökum þyngdarafls og þar af leiðandi yrði hún mér til helmingi minni ama. eyddi ég nóttu síðastliðinni á vinstri vanga í von um horstíflujöfnun. vaknaði ég í morgun með sömu stíflu sömu megin í sömu nös sömuleiðis. nú er ég með rauða nös eftir klósettpappírsnudd (því ekki er mjúka pappírnum fyrir að fara hér á vinnustað), og hef nýlokið við tvær klukkustundir við snýtingar rauðu nasarinnar fyrir framan 10 ungmenna hóp. eftir tíu mínútur mun ég hefja aðra tveggja tíma lotu en í þetta skiptið fyrir framan umþaðbil tuttuguogátta ungmenna hóp. sá hópur er all-krítískari og þyngri í vöfum, góður til að létta lund svona rétt undir helgina, og get ég því eigi beðið óspennt eftir að verða þess heiðurs aðnjótandi að reyna að halda horinu inní andlitinu á mér í heila tvo tíma. eða ég gæti náttúrulega snýtt mér í þeirri veiku von að sviðinn hverfi og nefið á mér rifni ekki af í sársauka og húðþurrki af bréfþurrki.

helbítis.
sniff...

fimmtudagur, apríl 14, 2005

dagarnir fljúga hjá án þess að ég geti reist við rönd og einhverra hluta vegna situr bloggið mitt sætt og fínt endalaust á hakanum. slík seta getur varla verið annað en sársaukafull og af þeirri ástæðu er ég komin hingað inn til þess að auðvelda síðunni minni tilveruna. fátt er jú sorglegra en staðnaðar bloggsíður...hehe...
nema hvað. undanfarna morgna hef ég verið dugleg við að fara með makanum í laugardalslaugina. besti tími dagsins, eftir að hafa skilað börnunum af sér og áður en almenningur fer að troða sér í laugina. það er fátt annað en yndislegt að vera þarna svona snemma innanum eldri borgarana.
sundhettuflóran er dásamleg og svo virðist sem ekki einn einasti dropi nái innfyrir þær þar sem fljóðin koma uppúr með skrauf-þurrt hár eins og nýkomið úr lagningu.
ég hef verið dugleg við að synda en það má eiginlega segja að ég stundi svigsund þar sem eldri borgarar fljóta lóðréttir á víð og dreif í lauginni og hraðskreiðari aðilar verða að gera ýmiskonar ráðstafanir til þess að komast bakka á milli án þess að stíma á eða sparka í sundhettudrottningu eða spídókóng. en það er bara gaman að hafa hindranir á leiðinni, eykur spennuna.
nema hvað, ég neyðist víst til þess að standa mig í vinnunni og til þess þarf ég að eyða tíma í hitt og þetta. hvort ætti ég nú að byrja á hinu eða þessu?

uppglenningur, ég man þig enn...

miðvikudagur, apríl 06, 2005

það er víst hvergi hægt að vera óhult. jafnvel ekki hérna í veröld bloggnördismans. nú veit ég fyrir víst að viðskiptavinir mínir í lærdómsítroðslunni eru flestir með eigin bloggsíður og svo hefur mér skilist að lítil ferðalög um lendur skrifenda geta tekið á sig mynd snjóboltans þar til að þeir sem hafa ekkert með að gera að lesa míns eigins síðu gætu fyrir útskýranlega keðjuverkun rambað hingað inn. því er best að nefna engin nöfn.
ég hef svosum sjaldnast nefnt nöfn. jú, ég hef nafngreint hana l-- systur mína og svo þykist ég hafa nafngreint einu sinni hann k------- j-------- óperusöngvara en þar fyrir utan, og án þess að hefja íburðarmiklar uppflettingar, þykist ég sárasaklaus af miklu nafnapoti. svo er aftur annað mál ef fólk kannast við annað fólk af lýsingunni einni saman. en það get ég bara fólki sjálfu um kennt ef það veit nægilega mikið um mig og mína kringumstæðinga til þess að kveikja á perum.
en nóg um það.
ég er þekki nefnilega mann, sem þeir sem þekkja mig af fjölskyldutengslum eða vinatengslum einum saman þekkja ekki, sem er haldinn því versta tilfelli af flösu sem ég hef nokkurn tíman komist í tæri við. ég stóð mig að því í hádeginu að færa mig og ristuðu samlokuna með ítalska kjötréttinum og gulu sósunni smám saman fjær þessum annars indæla aðila. ég hefði ekki gert það ef undirmeðvitund mín og meðvitund hefðu ekki stanslaust minnt mig á blessaðar húðflygsurnar sem minna á nýfallið íslenskt fönn. engin einasta flygsa var í augsýn einmitt þarna og þá, en ég vissi samt af tilveru þeirra og úttroðin af flösufordómum ímyndaði ég mér að þær feyktust í innanhússandvaranum og lentu á samlokunni eða jafnvel ofaní stútnum á gosdrykkjarplastílátinu mínu. ætli þetta sé ekki kallað sóríasis eða eitthvað svoleiðis því ekki er nú nógu mikið af hári eftir á áðurnefndu höfði til þess að þetta sé alltsaman sjampóofnæmi.
maðurinn er hreinlegur og vel tilhafður þannig að ég gæti seint sakað hann um að dreifa skítaflygsum, en það er eitthvað við dettandi húð sem fælir mig frá líkt og þegar móðir mín (ónafngreind) þurrkar af glösum úr uppþvottavél með viskustykki. úff, ég fæ gæsahúð af því einu að hugsa til þessa andskota.
ætli það sé til stuðningshópur fyrir fólk með flösufordóma og uppþvottavélaróþol?
nema hvað... mér er orðið kalt á puttunum. eru timburhús kaldari en steypuhús? er ég auli að kaupa allt þetta timbur í stað þess að verða mér og mínum útum einangraða steinsteypu með hita í gólfi? úúú...hiti í gólfi.... nú heyrði ég tær mínar hvísla sín á milli með litlum helíumröddum ,,hiti í gólfi, heyrðuð þið þetta stelpur!?...og við hérna eins og fífl í ullarsokkum á skítköldu parketti.."
talandi um mínar fögru tær þá get ég með gleði og stolti tilkynnt að ég er haldin ansi öfgafullu fótasindrómi sem lýsir sér í því að þegar mér er kalt á tánum get ég búið til íspinna úr rasskinnum þeim sem þykjast ætla að hlýja mér. þegar mér er heitt hinsvegar er ég nær yfirliði en dauða og minn versti óvinur eru strigaskór og hreyfing. sé heitt í veðri er mér lífsins ómögulegt að líða vel til fóta í lokuðum skóm, hvað þá ef ég þarf að standa upp og ganga í þeim. af sömu orsökum er ég gaurinn í líkamsræktarsalnum sem er alltaf á sokkunum. og af sömu orsökum mun ekkert ykkar nokkurn tíman sjá mig á lífi í eróbikktíma. það eru tærnar sjáiði til.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

horfði áðan á ruslatunnuna okkar fjúka um garðinn. er ekki alveg viss hvort ég var fegin eða svekkt yfir því að hún var tóm. ef hún hefði verið full hefði hún annað hvort ekki fokið eða annars hefði ég að öllum líkindum þurft að eyða parti af deginum á morgun við að tína ruslaafrakstur vikunnar saman héðan og þaðan af lóðinni. ætli ég sé ekki fegin að hún hafi verið tóm.

best að fara að ryksuga baðherbergið.

makinn var að sníða höfuðleðrið á frumburðinum og mér sýnist það hafa gengið með ólíkindum vel...nema hvað, ryksugun baráttusvæðisins virðist hafa mistekist all hrapallega.

þar kem ég inn í myndina.

ég er nefnilega haldin hinu eðlislæga kvenlæga ryksugukunnáttugeni.

föstudagur, apríl 01, 2005

fjúff hvað það gengur margt á í þessu lífi, sérstaklega eftir að ég hætti að troða skyndibitanum í heilann á mér. það er hreinlega hver einasta heilasella á fullu spani. mér líður svolítið eins og offitusjúklingi sem hefur farið í fitusog, nú get ég sko hreyft mig.
mikið innilega mæli ég með sjónvarpsleysi fyrir gesti og gangandi, kunningja og keyrandi.

ég er búin að vera með línuna ,,fallinn með 4,9 eitt skelfilega skiptið enn..." sönglandi í hausnum á mér undanfarna daga. gæti haft með prófatörnina sem er nú að ljúka að gera. sennilega ekki spennandi fyrir nemendur að hlusta á kennarann muldra þetta lag á meðan þeir læra fyrir próf... muahahaha.... ég sé svita spretta.

nema hvað, lóading týnd og gift tröllum. bölvaðar séu eineltisgelgjur þessa heims. bölvaðar. við munum þó vonandi endurheimta hana þegar hún finnur sér heilbrigðari syllu innan vinnumarkaðarins.

en nú er ég orðin svöng og mun splæsa arði hlutabréfanna í samloku þar sem ég ek heim á bílnum með nýju tímareiminni.

lengi lifi samlokugerðarbransinn, húrra, húrra, húrra!
góða helgi.