dagarnir fljúga hjá án þess að ég geti reist við rönd og einhverra hluta vegna situr bloggið mitt sætt og fínt endalaust á hakanum. slík seta getur varla verið annað en sársaukafull og af þeirri ástæðu er ég komin hingað inn til þess að auðvelda síðunni minni tilveruna. fátt er jú sorglegra en staðnaðar bloggsíður...hehe...
nema hvað. undanfarna morgna hef ég verið dugleg við að fara með makanum í laugardalslaugina. besti tími dagsins, eftir að hafa skilað börnunum af sér og áður en almenningur fer að troða sér í laugina. það er fátt annað en yndislegt að vera þarna svona snemma innanum eldri borgarana.
sundhettuflóran er dásamleg og svo virðist sem ekki einn einasti dropi nái innfyrir þær þar sem fljóðin koma uppúr með skrauf-þurrt hár eins og nýkomið úr lagningu.
ég hef verið dugleg við að synda en það má eiginlega segja að ég stundi svigsund þar sem eldri borgarar fljóta lóðréttir á víð og dreif í lauginni og hraðskreiðari aðilar verða að gera ýmiskonar ráðstafanir til þess að komast bakka á milli án þess að stíma á eða sparka í sundhettudrottningu eða spídókóng. en það er bara gaman að hafa hindranir á leiðinni, eykur spennuna.
nema hvað, ég neyðist víst til þess að standa mig í vinnunni og til þess þarf ég að eyða tíma í hitt og þetta. hvort ætti ég nú að byrja á hinu eða þessu?
uppglenningur, ég man þig enn...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli