mánudagur, apríl 25, 2005

makinn minn elskulegur er heima að gera fínt fyrir mig svo að ég geti skriðið beint upp í hreint rúm á hreinu heimili eftir vinnu. hann veit nefnilega um lækningamátt hreinleikans, eða kannski frekar um veikindatilfinningarmátt óhreinleikans. hvað sem það nú er sem hann veit um, þá er hann heima að gera fínt svo að mér líði betur við að koma heim. ég er nefnilega lasin í vinnunni og hef það yfir höfuð ansi skítt.
vöðvabólga í hægra herðablaði aftan, höfuðverkur í báðum heilahvelum ofan, beinverkir í beinum efra og neðra og slím og verkur í báðum lungum innri. það er hreint ekki sjón að sjá mig eða heyrn að hlusta á mig.
ástæðan fyrir veru minni hér á vinnustað er sú að ég vinn í hálfgerðu béskotans akkorði alltafhreint og nú er komið að loka viku þriðja síðasta akkorðs og verkefnin mega ekki við upphrönnun. að auki þarf ég að troða framtíð (reglulegum sögnum í framtíð ef ég á að vera nákvæmari), í sauðina þrátt fyrir að sjá takmarkaðan tilgang með troðslunni þar sem skrímsli eiga enga framtíð. það má þó reyna.
en nú er ég bara að vera neikvæð. auðvitað eiga þessar blessaðar rassgatsdúllur fullt af framtíð. það er ég, þessi sem þau kalla miðaldra, sem er á grafarbakkanum.
ég ætti kannski bara að tala í þátíð. allavega þegar ég notast við fyrstu persónu eintölu.

parasetamól hér ég kem.

Engin ummæli: