þriðjudagur, apríl 19, 2005

mig er farið að gruna samsæri.
þannig er nefnilega mál með vöxtum að alltaf þegar ég hugsa um, kem nálægt eða notfæri mér tannlækna, fer allt í skrall í munninum á mér.
mér sýnist sem svo að ég hafi verið brottnumin af geðveikum tannlæknavísindaglæpamönnum í frumbernsku, þeir hafa skipt á heilbrigða tannsettinu mínu og rusli sem þeir gætu grúskað í og lagað að eigin vild, og án þess að foreldrar mínir gerðu sér grein fyrir atvikinu hafi mér verið skilað aftur í vögguna með gómana útlítandi eins og þeir væru bara þarna berir að bíða eftir fyrstu tönninni upp á yfirborðið.
fyrsta merkið um að eitthvað væri að kom þegar ég missti mína fyrstu tönn við eplaát á leikskólanum. börnin sem sátu á móti mér bentu mér á að mig vantaði tönn. því trúði ég ekki fyrr en ég var dregin fyrir framan spegil og mér sýnt gatið. ég hef alla tíð staðið í þeirri meiningu að ég hafi gleypt tönnina, en nú þegar ég er loksins komin með þroska til að leggja saman tvo og tvo geri ég mér grein fyrir að tönnin var að sjálfsögðu brottnumin sem rannsóknargagn fyrir áframhaldandi tilraunastarfsemi í gómum mér.
nema hvað, líður svo og bíður og fátt gerist tíðindavert þar til ég fæ skíðalyftu í andlitið á fjallstoppi í austurríki, aðeins tólf ára að aldri. atvikið leit út sem óheppilegt slys væri, en aftur hef ég tengt saman punktana og séð heildarmyndina. í ferðahópnum okkar var tannlæknir (útsendari eða eftirlitsmaður), og hann róaði foreldra mína með því að brotna tönnin og sú lausa mættu bíða rólegar í rúma viku, eða þar til ég kæmist heim í hendur míns eigins tannlæknis (sem er að sjálfsögðu einn af höfuðpaurunum).
þegar ég komst í hans hendur var tönnin náttúrulega orðin bölvað drasl og ofanáhana var hlaðið meira drasli og foreldrar mínir rukkaðir. allt í samræmi við samsærið.
núnú, svo liðu árin einhvernvegin og hinsegin og ég var svosem ekkert meðvituð um tanntengda atburði þar til ég náði þeim stað í lífinu þar sem börn foreldra sinna þurfa að greiða eigin tannlæknareikninga og sjá sjálf um að koma sér til viðkomandi tannpersónu. þá fyrst fór ég að sjá mynstur það sem hefur staðfest sjálft sig fyrir mér á undanförnum dögum.
þannig er nefnilega mál með vexti að ég veit ekkert hvað ég er með margar fyllingar, en mig er farið að gruna að þær séu sárafáar, nema að þær eru fylltar með einhverju efni sem endist svo stutt að ég þarf endalaust að láta endurnýja þær (fyrir fullt af peningum). í ofanálag eru jaxlar mínir fylltir fjarstýrðu efni (sem tengist móðurstöðinni sem fjarstýrir tanngörðum framleiddum af þeim sjálfum), en fjarstýringin lýsir sér þannig að í hvert sinn sem mér verður hugsað til tannlæknis míns, fer ákveðið ferli í gang og ég missi fyllingu.
í síðustu viku ákvað ég endanlega að sannreyna samsæriskenninguna og hringdi í tanna til að panta tíma. og viti fólk!, samdægurs át ég brauð, var viss um að ég væri með fræ fast í tönninni, kroppaði í það og fékk fyllinguna með. þeir hafa nefnilega séð fyrir því að hafa alltaf nóg af verkefnum í hvert sinn sem ég fer svo að fjárhagur minn flytjist í heilu lagi yfir á fjárhag þeirra.
ef ég hugsa nógu lengi gæti ég jafnvel komist að því að tannlæknar og bakarar séu saman í plotti...

Engin ummæli: