það er víst hvergi hægt að vera óhult. jafnvel ekki hérna í veröld bloggnördismans. nú veit ég fyrir víst að viðskiptavinir mínir í lærdómsítroðslunni eru flestir með eigin bloggsíður og svo hefur mér skilist að lítil ferðalög um lendur skrifenda geta tekið á sig mynd snjóboltans þar til að þeir sem hafa ekkert með að gera að lesa míns eigins síðu gætu fyrir útskýranlega keðjuverkun rambað hingað inn. því er best að nefna engin nöfn.
ég hef svosum sjaldnast nefnt nöfn. jú, ég hef nafngreint hana l-- systur mína og svo þykist ég hafa nafngreint einu sinni hann k------- j-------- óperusöngvara en þar fyrir utan, og án þess að hefja íburðarmiklar uppflettingar, þykist ég sárasaklaus af miklu nafnapoti. svo er aftur annað mál ef fólk kannast við annað fólk af lýsingunni einni saman. en það get ég bara fólki sjálfu um kennt ef það veit nægilega mikið um mig og mína kringumstæðinga til þess að kveikja á perum.
en nóg um það.
ég er þekki nefnilega mann, sem þeir sem þekkja mig af fjölskyldutengslum eða vinatengslum einum saman þekkja ekki, sem er haldinn því versta tilfelli af flösu sem ég hef nokkurn tíman komist í tæri við. ég stóð mig að því í hádeginu að færa mig og ristuðu samlokuna með ítalska kjötréttinum og gulu sósunni smám saman fjær þessum annars indæla aðila. ég hefði ekki gert það ef undirmeðvitund mín og meðvitund hefðu ekki stanslaust minnt mig á blessaðar húðflygsurnar sem minna á nýfallið íslenskt fönn. engin einasta flygsa var í augsýn einmitt þarna og þá, en ég vissi samt af tilveru þeirra og úttroðin af flösufordómum ímyndaði ég mér að þær feyktust í innanhússandvaranum og lentu á samlokunni eða jafnvel ofaní stútnum á gosdrykkjarplastílátinu mínu. ætli þetta sé ekki kallað sóríasis eða eitthvað svoleiðis því ekki er nú nógu mikið af hári eftir á áðurnefndu höfði til þess að þetta sé alltsaman sjampóofnæmi.
maðurinn er hreinlegur og vel tilhafður þannig að ég gæti seint sakað hann um að dreifa skítaflygsum, en það er eitthvað við dettandi húð sem fælir mig frá líkt og þegar móðir mín (ónafngreind) þurrkar af glösum úr uppþvottavél með viskustykki. úff, ég fæ gæsahúð af því einu að hugsa til þessa andskota.
ætli það sé til stuðningshópur fyrir fólk með flösufordóma og uppþvottavélaróþol?
nema hvað... mér er orðið kalt á puttunum. eru timburhús kaldari en steypuhús? er ég auli að kaupa allt þetta timbur í stað þess að verða mér og mínum útum einangraða steinsteypu með hita í gólfi? úúú...hiti í gólfi.... nú heyrði ég tær mínar hvísla sín á milli með litlum helíumröddum ,,hiti í gólfi, heyrðuð þið þetta stelpur!?...og við hérna eins og fífl í ullarsokkum á skítköldu parketti.."
talandi um mínar fögru tær þá get ég með gleði og stolti tilkynnt að ég er haldin ansi öfgafullu fótasindrómi sem lýsir sér í því að þegar mér er kalt á tánum get ég búið til íspinna úr rasskinnum þeim sem þykjast ætla að hlýja mér. þegar mér er heitt hinsvegar er ég nær yfirliði en dauða og minn versti óvinur eru strigaskór og hreyfing. sé heitt í veðri er mér lífsins ómögulegt að líða vel til fóta í lokuðum skóm, hvað þá ef ég þarf að standa upp og ganga í þeim. af sömu orsökum er ég gaurinn í líkamsræktarsalnum sem er alltaf á sokkunum. og af sömu orsökum mun ekkert ykkar nokkurn tíman sjá mig á lífi í eróbikktíma. það eru tærnar sjáiði til.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli