sunnudagur, janúar 21, 2007

stundum þegar ég á erfitt með að sofna fer ég í huganum nákvæma yfirferð yfir hvert einasta skúmaskot í íbúðinni á efstu hæð til hægri í þrastarhólum tíu. ég byrja niðri í sameign og fer upp stigana. einhverra hluta vegna byrja ég alltaf á íbúðinni innst í þvottaherberginu þar sem frystikistan var, straubrettið og grindurnar þar sem við hengdum þvottinn áður en við fengum þurrkara. í dyrunum var hengi. í eldhúsinu var innrétting sem ég man í smáatriðum. gæti jafnvel talið upp innihald ruslaskúffunnar. ég ferðast í gegnum stofuna og aukaherbergið (skrifstofuna), framhjá fataskápunum sem voru líka veggir og spegill, kíki inná bað, inn til mömmu og pabba og systur minnar, rek nefið fyrir hornið í sjónvarpsskotið (get samt ómögulega munað hvaða sófi var þar...), og enda svo við innganginn þar sem mitt herbergi var. þangað fer ég inn og loka á eftir mér. þá er ég komin inn í eggið mitt.
ég sæki einhverja öryggistilfinningu í minninguna um þennan stað. mér líður vel að vera þar í huganum en á sama tíma sakna ég einhvers sem var. ætli það sé ekki tengt öryggi æskunnar. þegar mér hefur liðið illa langar mig aftur ,,heim" í herbergið mitt sem ég átti frá fimm til tuttugu ára. litla konungsríkið mitt.
núna líður mér vel. ég er samt að hugsa um að skreppa í göngutúr um gamla hverfið fljótlega.
nostalgía....mmmmm.....

Engin ummæli: