föstudagur, janúar 05, 2007

nú er ég aldeilis ekki búin að vera dugleg að tjá mig, enda nóg að gera.
snúa sólarhringnum við eftir frítíðina, koma skipulagi á nemendurnar, gerast nemönd sjálf og tékka mig aftur inn í raunveruleikann.

annars er gaman frá því að segja að nýja skólanum mínum er skrambi fínt. ég er semsagt lögð af stað í fjarnám í káháí en þar er fólk að kenna mér að kenna fólki. sem er gott, enda má ávalt á sig blómum bæta og að gráðum gæta og vitið væta og kollinn kæta og markmiðum mæta og takmörk tæta og skoðun sæta og það heldur betur allt í senn nema hvort tvegga sé ef vera skyldi bæði og hérumbil og hananú.

það er margt fólk og mismunandi lagt af stað í sama námi og ég. allir sem ég hef eitthvað átt saman við að sælda hafa reynst hið fínasta fólk, nema leiðinlega konan í hvítu úlpunni. en það er ekkert að marka hana því mér hefur þótt hún leiðinleg síðan 1995. samt þekki ég hana ekki. bara ein af fáum týpum sem stinga mig í taugarnar án alls samneytis. og við samneyti hvursu smávægilegt sem það er. og þarf mikið til. svei mér þá ef það er ekki bara einhver undirliggjandi beiskja og óhamingja og ótrúverðug ytri semi-almennilegheit hennar sem eru að stuða mig. ... eitthvað við þetta augnalausa bros...

nema hvað. heimilið er að komast í samt lag eftir brottför útlendinganna minna og matvælin í ísskápnum aftur aðlöguð að einföldum neysluvenjum okkar heimilismeðlima. ég á bara eftir að losa mig einhvernvegin við fullan poka af sellerí (sem mér finnst mjöööög vont), þrjár radísur, poka af basilíku, nokkra allskonar skrýtna lauka, gula papriku, tómatdjús og helling af lime sem þau keyptu og skildu eftir en ég kann ekkert að nota. ég losaði mig við laxahrognin og laxapatéið til foreldranna en gleymdi að troða fjárans selleríinu uppá móður mína sem étur slíkan ófögnuð.

hvar er annars systir mín?

Engin ummæli: