sunnudagur, mars 08, 2009

hvort sem þú trúir því eða ekki þá er ég búin að vera hugsi um helgina. hugsi hugsi.
það er kannski ekki beint minn stíll en ég ákvað að breyta til bara þessa helgi og hugsa.
reyndar var ég næstum allan tímann að passa tvo litla dani sem höfðu hátt á dönsku en ég fór með skytturnar þrjár í sund, tvisvar, og þá náði ég meðal annars að hugsa.
ég skellti liðinu í laugina, laumaði mér í pottinn, lagðist útaf með eyrun ofaní vatninu og lét hugann reika um víðan völl.
mér finnst stundum voða gott að horfa uppí himininn og skynja hvað ég er lítil. þá fæ ég aðeins betri heildarsýn á líf mitt og tilveru. get hálfpartinn skoðað það ofanfrá. kannski er ég á einhverjum svona endurskoðunaraldri... ég veit það ekki. isabel allende, uppáhalds rithöfundurinn minn, segir að þetta sé sérstakur aldur. frú allende hefur aldrei rangt fyrir sér í mínum bókum. eða hennar bókum. eða æ þú veist...
nema hvað...
ég er voða mikið að skoða hvar ég stend. gagnvart öllu og öllum, en þó helst gagnvart sjálfri mér.

förum nú í tilefni dagsins yfir hvar-stendur-maja-listann:

ég held að ég standi ágætlega í vinnunni þó fastráðningunni sé svosem ekki fyrir að fara. mætti kannski vera aðeins skipulagðari og duglegri að undirbúa fram í tímann en það kemur með kalda vatninu. ég held amk. að nemendur séu almennt nokkuð sáttir

veitingastaðurinn gengur og vonandi mun nýi staðurinn gera það líka. ha? ó! var ég ekki búin að segja þér það? já, sko, u, við erum að opna bar/kaffihús í næsta húsi við okkur sjálf. var það mín hugmynd? reyndar ekki, eins ótrúlegt og það má virðast... en semsagt, það er líka að hluta til á minni risastóru könnu. bókhaldsutanumhald, tímatalning vegna launa, hugmyndasmíð, málningar- og skreytingavinna og utanumhald um geðheilsu framkvæmdastjórans.

einhverstaðar þarna inná milli á ég tvö börn með þarfir og ég á víst að vera að undirbúa fermingarveislu.

af og til tekst mér að grynnka á draslinu heima, skella í þvottavélar og skjótast í bónus svo að heimilishaldið hjakkar áfram þó svo að einstaka sinnum gleymist að kaupa mjólk. ég er reyndar haldin krónískri frestunaráráttu gagnvart fjallinu sem þarf að brjóta saman og liggur ofaná þvottavélaborðinu. en það kemur...

og þá er það hún ég. hvar stend ég í öllu þessu? það má almættið vita því varla veit ég það sjálf.

í heitapottinum í dag fór ég að hugsa um litlu hlutina sem veita mér gleði. þeir eru reyndar nokkuð margir, enda er ég glöð að eðlisfari. sem dæmi um stuð má nefna að ég fer samviskusamlega á kaffihús með vinkonunni og reyni mitt besta að hitta systurina en ég mætti reyndar vera duglegri að sinna foreldrunum og ömmunni...

ef ég á að vera hreinskilin þá gæli ég stundum við hugmyndina um hreinlega að snúa mér í hring og stinga af frá pakkanum. þá myndi ég bara gera það sem mig langar að gera fyrir mig. veita mér þá eigingirni að hugsa eingöngu um eigin tilfinningar, langanir og þarfir.
en svo opna ég augun og sé krakkana sem ég ber ábyrgð á tala dönsku og íslensku saman í lauginni og heyri þau kalla að þau þurfi að pissa og séu orðin svöng.

ég veit að ég valdi mér þetta líf sjálf og ég veit að ég þarf að standa undir væntingum, kröfum, ábyrgð og öllu því. og það er alveg hægt að hafa gaman af því líka.
en ég sá samt þegar ég horfði upp í himininn að lífið er ekkert líf án sjálfrar mín. ég verð að næra hugann og hjartað. að ég verð að gera hlutina sem eru skemmtilegir .

Engin ummæli: