föstudagur, apríl 30, 2004

við hjónakornin skruppum í dómkirkjuna í gær að hlusta á KK. mikið er hann ljúfur tónlistarmaður. það eina sem mér fannst erfitt við að horfa á hann í kirkju er það að einhverra hluta vegna fæ ég alltaf hláturskast í kirkjum, það er eitthvað innbyggt í mér. nú og svo er greinilega bannað að hlæja í kirkjum svo að ég hlæ enn meira en ella. það er svona sársaukafullur óstöðvandi djúp-hlátur. voða góður fyrir sálina.
ég byrjaði sko að hlæja þegar ég sá svipinn á mínum þegar hann fattaði að það var tengdamóðir hans sem var að humma með lögunum. annars þarf ég yfirleitt óskaplega lítið til að fara að flissa svona í kirkjum. hrikalegt alveg. í jarðarförum get ég ekki hætt að gráta, það er alveg sama hvern er verið að jarða, ég bara sit og græt út í eitt, við öll önnur tækifæri fæ ég hláturskast. brúðkaup og skírnir... ekki nefna það! hvað ætli það sé við kirkjur sem gerir mig svona óstöðvandi í því sem ég tek mér fyrir hendur, hvort sem það er hlátur eða grátur?
vinsamlegast skráið hugmyndir í gestabók.
svo er bara föstudagur í dag. dúdilíbúbab...
stráði grasfræjum í garðinn minn í gær. mikið assgoti skal hann verða fagur hjá mér. ég er nefnilega óvart þessi týpa sem hefur gaman af að gera fallega garða. eitthvað sem ég festist í þegar ég var verkstjóri í vinnuskólanum og endaði alltaf á að gera mest sjálf. krakkaskrattarnir voru í því að stinga af eða rífa kjaft yfir því að þurfa að vera á staðnum yfir höfuð. vona að það hafi ræst úr þeim.
best að fara að ljósrita... góða helgi

fimmtudagur, apríl 29, 2004

búin að lesa góða gagnrýni á da vinci lykilinn. trúi nú að bókin sé ekki eins góð bók og ég hélt (samt góð) en þó frekar dæmi um brilljant sölumennsku og auglýsinga/sölusálfræði. sbr. leiki og þrautir um þemað á netinu.
bara segi svona...
nú er ég að reyna að skrifa frétt uppúr frétt. hin síðarnefnda er af www.fjarmalaraduneyti.is og snýst um samkomulag ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar um lífeyrisskuldbindingar samrekstrarstofnana. ég skil ekkert um hvað fréttin er og get þaðan af síður búið til einfaldaða útgáfu af henni. hvaða tilgangi þjónar það að skrásetja atburði og staðreyndir á svo fornfálegu og uppþembdu tungumáli að fólk verður að notast við latneskar orðabækur til að komast til botns í innihaldinu? þetta er stefna sem ég hreinlega næ ekki utanum. svo er aftur annað mál hvort það segi frekar eitthvað um sjálfa mig eða kerfið... hmmm.....
ég komst ekki inn í fjarnám til kennsluréttinda í KHÍ. svekkjandi. 306 sóttu um, 100 komust inn...þar mættu kalli jóns og gústi læknisins og nonni sæmundar og halli rakarans og fúsi sigurleifs og palli á goðanum og denni í efstabæ... en ekki ég.
svekkjandi að fá svart á hvítu að það séu amk. 100 manns hæfari í nám (sem er ekki einusinni mjög krefjandi), heldur en ég sjálf. ég finn að ég er mun svekktari núna en þegar ég komst ekki inn í flugleiðaskólann. er víst ekki þessi ferðaskrifstofutýpa. ég var um tvítugt þegar ég sótti um þar, sá í hillingum að geta ferðast ókeypis um allan heim og verið á launum við að gista á hótelum. mikið er ég fegin að ég komst ekki í þann skóla.
langar mig að verða kennari??...eða dettur mér kannski bara ekkert skárra í hug og neitunin er merki um að ég eigi að hugsa betur og leita aðeins lengur? ef öll þau neitunarbréf sem mér hafa borist vegna umsókna um störf og nám, eru merki um að ég eigi eitthvað betra skilið, þá verður þess ekki langt að bíða að ég fari að berjast við Ástþór og Óla í forsetakosningum.
ekki það að ég yrði sosum alveg geggjaður fosseti!

miðvikudagur, apríl 28, 2004

það er alveg á hreinu að sumir eru öðruvísi en aðrir. það að lesa blogg er pínulítið eins og að fá að kíkja inn í hausinn á öðru fólki. mikið óskaplega er sumt fólk með mikið af rusli í hausnum... (nod nod, know what I mean...)
en annars virðast þó flestir sem ég hef lesið hingað til vera fínasta fólk. ég er reyndar ekki víðförull lesandi, en ég hef sosum séð sitt lítið af hverju. ég er fegin að það skuli vera til góður slatti af gáfuðu fólki á íslandi. þá erum við örlítið öruggari að einhverju leiti/leyti? (talandi um gáfur.. ehemm) takk fyrir það gáfaða fólk... gáfur eru reyndar afstæðar. ég sjálf er td. góð í ýmsu en mis-hrikaleg í öðru. ég hef lengi talið mig vera góða í að hafa tilfinningu fyrir fólki. sumt fólk vekur enga þægilega tilfinningu og þá reyni ég svolítið að gefa séns, benefit of a doubt þangað til ég kynnist betur. en stundum er líka barasta ágætt að komast að því að þetta fólk eru hrein og bein fífl og brenglaðir vanvitar. þá fæ ég klapp á öxlina frá sjálfri mér.
fínt þetta að tala bara svona undir rós, rósir eru falleg blóm og klassísk.
það er heldur ekki öllum gefið að skrifa fallegt mál og rétt og svo sannarlega á ekki fyrir öllum að liggja að verða rithöfundar að ævistarfi. en það er nú önnur ella. annars er það merkilegt hvað það eru til margir ,,rithöfundar" á svona litlu landi.

ég segi nú bara pass.
nei-bréfin hafa náð yfirhöndinni og ég gefst upp
það er búið að læsa mig inni á skrifstofu og lyklinum hent í hafið.
ég mun aldrei komast héðan út.

þriðjudagur, apríl 27, 2004

hey krakks. gaman að sjá ykkur aftur. ég er búin að vera í smá lamasessi. vaknaði á sumardaginn fissta pikkföst í bakinu, gat ekki snúið mér í neina átt og þá sagði ég nú bara "gleðilegt sumar maður!" nú svo tók ég ibufen. á föstudaginn var ég lítt skárri, tók veikindadag frá vinnu og fór í sjúkranudd. þar varð ég stór strákur og fékk raflost, en batnaði til muna og er nú í dag bara aum, ekki illt. mætt í vinnuna með ibufen í maganum og er að reyna að stilla skrifborðsstólinn betur. skrifborðsstóll...tvö húsgögn í einu orði.
nema hvað, amma mín varð 80 ára í gær. til hamingju með það. hún virkar samt alveg jafn ung og hún var þegar ég var lítil, ég held að allir séu að eldast nema hún, hún er stödd í tímaleysi. en nema hvað, heyrði hana óvart spjalla við vinkonurnar í gær, voru að tala um utanlandsferð sumarsins (þær eru sko enn á skrallinu), og þá sagði amma: "ætli við verðum ekki bara fáar, þetta er allt að drepast!" og svo hlógu þær eins og unglingsstelpur á leið á framhaldsskólaball. ætli húmorinn minn fari að ná utanum dauðann þegar hann fer að ná í rassgatið á jafnöldrunum? mikið vona ég það nú.
nema hvað, ég fór á bókasafnið um daginn (er að reyna að gera það að vana aftur) og tók nokkrar. meðal annars eina eftir höfund sex and the city, en bókin heitir 4 blondes. áhugi minn á bókinni var eiginlega af rannsóknarlegum toga, en boy o boy, það er sjaldan sem ég skippa heilu köflunum og hætti svo áður en bók lýkur. það gerði ég þó í þessu tilfelli. vúff hvað gildi fólks eru mismunandi og vúff hvað kynlíf er ofmetið fyrirbæri. það er svosem ekki slæmur hlutur per se, en okkur mannfólkinu tekst alltaf að snúa útúr, brengla og skemma. nema hvað, í þessari blessuðu skruddubók nota ljóshærðu brjóstamiklu grönnu og fögru new york stúlkurnar kynlíf óspart til að koma sér á framfæri og fá sínu fram. mennirnir nota það hinsvegar til gamans, skítt með eiginkonur eða aðrar konur, þær eru aukaatriði, kynlífið sjálft er málið. bðach... nenni ekki. nú svo ég lokaði bókinni og kveikti bara á sjónvarpinu. hver blasir við mér þá önnur en stúlkan sem svaf hjá Beckham. jeeizus kræst !! séð og heyrt með bleiku og bláu twilight zone..... hjálpaðu mér upp mér finnst ég verað drukkna...

miðvikudagur, apríl 21, 2004

kláraði da vinci lykilinn í gær. hún hoppaði á hápunktum alla leið, svaka spennó og svo í endann féll allt í dúnalogn. hún varð þannig ekki ein af þessum bókum sem ég hef lesið og finnst skítfúlt þegar kemur að síðustu blaðsíðunni. þessum sem fólk sér eftir að hafa klárað. en góð samt. greinilega mikið rannsakað efnið og grúskað. grúsk er einmitt minn tebolli. ég væri fín í svona antiques roadshow eins og er oft á discovery. leysa þrautir, grúska og finna svör og leysa leyndardóma. og svo málvísindi, tungumál og sögur. sagnfræði er líka góð að vissu leyti. þegar þessu öllu er blandað saman við samskipti við skemmtilegt fólk, frjáslegan vinnutíma, góð laun og plentí frí, þá er draumadjobbið mitt fundið.
Þeir sem fá hugmynd um starf vinsamlegast skrifið í gestabók.
fyrir utan það eru allir hressir bara. fékk sms frá lóu í pulsulandinu í gær. hún spjarar sig blessunin.
ég er hress fyrir utan smá verk í bakinu, þarna efst. þetta er skrifstofustólasetubólgan. krónískur andskoti

þriðjudagur, apríl 20, 2004

er hægt að raska rassgatinu á sér? muehehehe... mín í stuði í dag. er að lesa da vinci lykilinn. mæli með henni fyrir þá sem hafa gaman af leysingum flókinna flækna með sagnfræðilegu og guðfræðilegu ívafi. samt svekkt yfir að hafa horft á þátt á stöð 2 um daginn sem fjallaði um þemað og sagði mér aðeins of mikið. ætti að banna svona þætti sem uppljóstra hlutum úr bókum sem margir eiga eftir að lesa. pakk.
en ég er samt svaka spennt, gæti jafnvel toppað harry potter!
svona langar mig að geta skrifað. bók sem er erfitt að leggja frá sér og dapurlegt að kveðja þegar sögunni lýkur. hvað þarf ég að fá í heilann til að geta það? hvað er það sem mig vantar? hvar liggur svarið? það að geta komið frá sér svona stykki, það myndi uppfylla alla mína stærstu drauma.
en ég hugsa og ég hugsa og það kemur bara prump.
jamm og jæja. dejá-vu, mætt í bláa skrifborðsstólinn fyrir framan hp L1510 skjáinn og dökkbrúna hornborðið. græna gúmmítuðran undir úlnliðnum til að fá ekki sinaskeiðabólgu, annað eins áfast músarmottunni. gulir miðar hirst og her, staflar af blöðum með tölum, gulur heftari, dagatal, reiknivél, svartur lampi, svartur sími með fullt af tökkum og ljósum, grár gatari, skrifblokk, varasalvi, samþykktir sjóðsins, grá gardína, möppur, skæri og ég. draumastaðurinn.
lóa skrifaði í gestabókina hans hulla (sem er í útrýmingarhættu), að hún væri kvíðin. ekki kvíða mín kæra (ef þú skyldir álpast hingað inn). ekkert að kvíða, bara fullt af óráðnu til að hlakka til að komast að, því eitt er víst að alltaf verður ákaflega gaman þá, gaman þá, gaman þá, ákaflega gaaamaaan þá. up up and away... og svo fyrir þá sem skilja hrafl í espanjóli þá kemur hérna smá peppsöngur sem ýmsir frægir spænskumælandi hafa spilað (spænskuspilandi).

oye, abre tus ojos
mira hacia arriba
disfruta las cosas buenas que tiene la vida
abre tus ojos
mira hacia arriba
disfruta las cosas buenas que tiene la la la la la la laaaa la la la la la la laaa...

og fyrir þá sem ekki skildu, þá má nálgast ódýrar spænsk-íslenskar orðabækur í hinum ýmsu bókabúðum heimsins.. he he he... (ég voða sniðug, skrifa eins og einhver fjöldi fólks eigi eftir að sitja og brjóta heilann um þetta.. he he)

við höfum bara gaman af þessu þórður minn.

bið að heilsa maríusi litla

föstudagur, apríl 16, 2004

mikið hef ég verið blogglöt undanfarið. en það er helst að frétta að ég er komin í heitan spjallþráð að rökræða ljósmyndara á brudkaup.is en það er fyndin veröld. aldrei datt mér í hug að það væru til tugir eða hundruðir stúlkna sem hafa svona mikið fyrir því að velta sér uppúr brúðkaupsundirbúningi. ég er farin að hafa áhyggjur af því að vera anti-veislu-hátíðar-skreytingavæn. partý eru samt fín. hélt eitt slíkt um daginn þar sem við fengum að sjá rassasöng og breta í röndóttum jakkafötum. það var gaman.
frumburðurinn ennþá með gubbuna og ræpuna. það er ekki gaman.
í gær fékk ég svo bréf frá kristinni konu frá Nígeríu sem er að fara að deyja úr krabbameini og hún ætlar að gefa mér 12,6 milljónir dollara bara svo að eitthvað ókristið fólk komist ekki í fúlgur eiginmannsins heitins. það eina sem ég þarf að gera er að senda lögfræðingi hennar persónuupplýsingarnar mínar og þá á ég risastóran bankareikning!! heldaraséflott!? loksins öll mín vandamál leyst, ég þarf bara að gefa hluta af þessu til kirkjunnar, en það er sosum allt í lagi, af nógu er að taka.
þetta var nú gleðifrétt dagsins.
hvernig er annars best að sitja til að fá ekki illt í bakið af skrifstofustólum?
og góða helgi svo bara

fimmtudagur, apríl 15, 2004

lesandinn kominn aftur í gestabókina, einum fjölskyldumeðlim ríkari og fjölmörgum svefnstundum fátækari.
can´t win them all buster....
hnje hnje
annars er bara allt í fínu hérnamegin. frumburðurinn með upp og niður pestina og mig dreymdi að ég var að vaða í íslensku vatni á milli staða innaní internetinu sem var eiginlega eins og risastór hellagöng full af hlutum sem tengdust þema síðunnar, og ég var að leita að uppruna síðunnar um íslenska vatnið og það svona blandaðist allt saman í útþynntari síður og lélegra vatn. svo var líka einhver útúrdúr um bláa og rauða tískugalla einhverja sem voru úr svona skrýtnu gúmmíi, stutterma og stuttbuxna með oddhvassa geimverulega hettu og grímu og allskonar götum út um allt. þetta hékk á slám svona í útúrdúrum frá fossandi vatninu frammi á gangi.
svo vakti emil mig til að fara að gubba.
draumráðningar anyone??...

miðvikudagur, apríl 14, 2004

ég hef alltaf átt erfitt með að sleppa. til hvers er þessi síða...? hreinlega veit það ekki.

þriðjudagur, apríl 13, 2004

er ég eitthvað andfúl eða hvað?
ég er að bíða eftir að hún lóa litla systir mín sem situr úti í götu láti heyra frá sér.
zo will ich weisser hvordan zie gegangst uber der aus die berliner.
(er að hugsa um að verða tungumálakennari)
ég ætla að vera eilífðarnörd, hengja mig fast í gamla trenda og hleypa engu úr tísku. nú er td greinilega eitthvað að ósvalast að vera að blogga. ég hætti samt ekki neitt, og ekki á ég nú fjölfarna síðu, njah. en ég læt ekki bugast og gefst ekki upp þrátt fyrir fulla hnefana sem standa fram úr ermum þó síður væri og hananú.
das kan ich nicht bestandentolen.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

mánudagur, apríl 05, 2004

jæja þá, nú er lesandinn minn barasta kominn í barnseignarfrí. hmmm... og lóan flogin suður á bóginn. hummdilídúda. pallastemming í minni í dag hérna inni á netsíðum. spurning kannski um að fara að hengja upp flyera með www.hryssa.blogspot.com he he he... djók.
svo er líka oft ágætt að spjalla bara aðeins við sjálfa sig. óneitanlega önnur stemming sem fylgir því, en allt í lagi líka.
þarf að færa hurð, sjónvarp, sækja ofn, hellur, hillur og bækur, raða í skáp, mála horn, kaupa ljós, skúra gólf, þvo glugga og vinna milljón. hausverkur.
ef þú skyldir slysast til að lesa þetta ertu einn á móti milljörðum fólks sem mun aldrei lesa þetta. ég er eiginlega bara núna að eyða upp internetplássi, sem hefði svosem bara verið notað í leiðbeiningar fyrir sprengjugerð eða barnaklám, svo það er kannski eins gott.
hjúkk að ég er að skrifa!

föstudagur, apríl 02, 2004

jamm og jæja. best að blogga bara ekkert í dag. þú verður bara að lesa eitthvað annað þórður minn.
þykir það leitt, vona að þú hafir ekki verið farinn að hlakka til.. he he he... eins og það sé tilhlökkunarefni að lesa blogg. en það er þó ogguponku spennó þó, þrátt fyrir að þetta sé yfirleitt bölvað röfl í manni, einskinsnýtt röfl og raus og þvæla.
sem minnir mig á það.... ég þarf að gera fínt í stiganum heima hjá mér um helgina.
eigðana góða

fimmtudagur, apríl 01, 2004

sól sól skín á mig ský ský burt með þig (svo hef ég aldrei skilið almennilega restina).
nú er kaupið mitt komið og farið. einu sinni fékk ég kaup og þá átti ég pening. gat keypt mér eitthvað skemmtilegt sem var jafnvel gersamlega gagnlaust drasl bara af því bara. nú fer hver einasti auka aur í bónus eða upp í visareikninginn.
ef ég væri ríhík dararururururararararíruríruramm...
mig langar ekkert að sjá the passion of the christ. manninum mínum fannst nefið á honum vera gerfilegt. slíkt skemmir heilu myndirnar fyrir mér. svo er ég ekkert voða mikil biblíu þjáningar dramatíkurfrík. svona er nú mannfólkið misjafnt.
ef jay leno myndi stoppa mig úti á götu og spyrja hver væri framkvæmdastjóri landssambands lífeyrissjóða, þá gæti ég svarað honum rétt!
hjúkket...