nú er ég að reyna að skrifa frétt uppúr frétt. hin síðarnefnda er af www.fjarmalaraduneyti.is og snýst um samkomulag ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar um lífeyrisskuldbindingar samrekstrarstofnana. ég skil ekkert um hvað fréttin er og get þaðan af síður búið til einfaldaða útgáfu af henni. hvaða tilgangi þjónar það að skrásetja atburði og staðreyndir á svo fornfálegu og uppþembdu tungumáli að fólk verður að notast við latneskar orðabækur til að komast til botns í innihaldinu? þetta er stefna sem ég hreinlega næ ekki utanum. svo er aftur annað mál hvort það segi frekar eitthvað um sjálfa mig eða kerfið... hmmm.....
ég komst ekki inn í fjarnám til kennsluréttinda í KHÍ. svekkjandi. 306 sóttu um, 100 komust inn...þar mættu kalli jóns og gústi læknisins og nonni sæmundar og halli rakarans og fúsi sigurleifs og palli á goðanum og denni í efstabæ... en ekki ég.
svekkjandi að fá svart á hvítu að það séu amk. 100 manns hæfari í nám (sem er ekki einusinni mjög krefjandi), heldur en ég sjálf. ég finn að ég er mun svekktari núna en þegar ég komst ekki inn í flugleiðaskólann. er víst ekki þessi ferðaskrifstofutýpa. ég var um tvítugt þegar ég sótti um þar, sá í hillingum að geta ferðast ókeypis um allan heim og verið á launum við að gista á hótelum. mikið er ég fegin að ég komst ekki í þann skóla.
langar mig að verða kennari??...eða dettur mér kannski bara ekkert skárra í hug og neitunin er merki um að ég eigi að hugsa betur og leita aðeins lengur? ef öll þau neitunarbréf sem mér hafa borist vegna umsókna um störf og nám, eru merki um að ég eigi eitthvað betra skilið, þá verður þess ekki langt að bíða að ég fari að berjast við Ástþór og Óla í forsetakosningum.
ekki það að ég yrði sosum alveg geggjaður fosseti!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli