þriðjudagur, október 12, 2004

ég á tveggja ára barn. tveggja ára börn eru svakalegur þjóðflokkur. það nýjasta er að hún vaknar uþb 15 sinnum á nóttu til að vesenast yfir því að bangsinn sé ekki á réttum stað, hún heimtar að komast í mitt rúm (sem hún fær ekki eins og staðan er), hún vill láta breyta sænginni og bara almennt rugl. við makinn höfum reynt að sofa þetta af okkur með eyrnatöppum en hún hefur dottið niður á tækni í raddbeitingu sem smýgur í gegnum hvaða eyrnatappa sem er og beina leið inn í merg og bein. það á ekki af okkur að ganga. svo vaknar maður drullupirraður og fúll og þreyttur og ringlaður og vill helst henda einhverjum út um gluggann. íbúðarskipan og fólksfjöldi heimilisins býður ekki uppá aðskilin herbergi eins og staðan er og því deilum við herbergi með nátttruflaranum. henni hefur tekist að valda þreytu með tilheyrandi taugatitringi, vondu skapi, baugum og drullumalli. ekki gott mál.
um klukkan 8, þegar við viljum helst fá að sofa áfram eftir hamagang næturinnar vaknar hún svo að fullu og þá hefst leikurinn á ný. piss og kúkur, svengd og djöfulgangur. hún í rosa góðu skapi og leikur á alls oddi þar sem hún potar legókubbum í augun á manni, danglar dúkkum út um allt og notar mig svo fyrir hest til að hossa sér á.
spurning hvort ekki væri hægt að setja barnarúmið í tjald úti í garði...?

Engin ummæli: