í gær var stærsta fréttin mín um möguleg kaup á einbýlishúsi og var ég að vonum glöð með það (og er enn). en áður en deginum lauk fékk ég nýjar fréttir, alls ótengdar, sem mér þykja skyggja all verulega á einbýlishússhamingjuna.
það hvíslaði að mér lítill fugl að maður hefur sagt manni sem sagði konu sem sagði konu að heimilisástandið hjá mér væri allt í steik. til þess að útskýra nánar leyfi ég mér að taka fram að eins og sumir vita er maðurinn minn ljósmyndari og hann er líka útlendingur. einhverstaðar meðal kollega hans kom til umræðu að hann byði óvenjulega lág verð og eitthvað bla bla um hvort það væri nú viturlegt. útfrá umræðunni um útlenska ljósmyndarann með lágu verðin tók einhver innan hópsins sig til og upplýsti liðið um að það þyrfti nú svosem litlar áhyggjur að hafa af kauða, enda væri hann á leið úr landi fljótlega vegna þess að hann væri búinn að koma sér í svo mikil vandræði. vandræðin felast víst í því að hann er orðinn mjög óvinsæll eftir að hafa lamið konuna sína (mig) svo svakalega og oft að foreldrar mínir hefðu verið kallaðir til að skakka leikinn. og af þeim sökum er brjálaði konuberjarinn á leið úr landi.
ég get ómögulega ímyndað mér hvaðan svona saga kemur og hver hefur nægilega frjótt ímyndunarafl eða nógu mikið hatur á makanum mínum til að láta sér detta svona saga í hug og hefja dreifingu á henni. það er mér gersamlega algerlega og fullkomlega óskiljanlegt.
til að byrja með fékk ég hláturskast þegar ég heyrði þetta og fannst það svo fáránlegt og útúr öllum heilögum kúm að ég gat ekki annað en hlegið. svo síaðist alvarleikinn þó inn og ég varð sár.
mér er að því leyti sama að ég veit að það er enginn einasti fótur fyrir sögunni en það sem mér þykir þó sárast er það að við svona ásakanir verður til lítill og ljótur efi. ég finn þörf fyrir að réttlæta eitthvað sem er ekki til og finn að það er sama hvað ég segi...efinn er til staðar. hvað ef hún er svo kúguð að hún þorir ekki að segja neitt? hvað ef hún er bara að ljúga því að hún sé ekki lamin?
mannorð okkar hjónaleysu getur skaddast all svaðalega og það er ljótur leikur.
makinn minn fær á sig orð sem brjálæðingur og skíthæll og fólk sem við þekkjum og þekkjum ekki hugsar sitt óháð öllum yfirlýsingum sem við gætum gefið.
ég finn að ég er sár, reið og stressuð. einmitt þegar mér fannst lífið vera orðið of gott til að vera satt....þá var það svoleiðis eftir alltsaman.
tíminn drepur svosem niður kjaftasögurnar en litli ljóti efinn um að maðurinn minn lemji mig sundur og saman á bak við lokaðar dyr verður ábyggilega þrautseigari.
hverjum dettur svona lagað í hug?
það skal viðurkennast að makinn minn kemur úr upptrekktri menningu þar sem karlmenn leysa stundum deilumál með því að gefa hvor öðrum á snúðinn og hann hefur svosem gefið einstaka snúða hér áður fyrr, en skýrt skal tekið fram að þessháttar hefur aldrei komið fyrir nema þegar langt hefur verið farið útfyrir öll velsæmismörk í hegðun gagnvart honum. og er það hvort eð er algerlega ótengt, enda maðurinn sallarólegur að dunda sér við að stofna lítið fyrirtæki í tilraun til að losna við að vera uppvaskari eða fiskflakari og geta unnið við það sem hann hefur menntun til.
nema hvað. frímínúturnar eru búnar. best að setja upp kennarasvipinn og vona að enginn af nemendunum mínum hafi heyrt hvíslað að kennarinn þeirra sé lamin eins og harðfiskur þegar hún kemur heim úr vinnunni.
góða helgi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli