sunnudagur, apríl 02, 2006

það eru til ýmsar gerðir af fólki.
sumir eru alltaf í vörn og upplifa stanslaust að verið sé að traðka á rétti þeirra. það fólk rífst oft og á til að blokkerast á röksemdir og sjónarhorn annarra. vill líka helst tala um sitt og sína frekar en að hlusta á aðra.
önnur gerð fólks reynir að vera ósýnileg. það er fólk sem brosir oft litlu svona ,,allt er fínt, ekki taka eftir mér" brosi. fær fjólubláa flekki um allan líkamann sé athygli beint að þeim en hefur oftar en ekki fjandi gáfulega hluti fram að færa og semur dúndurgóð ljóð.
ein týpan er þessi svali sem höndlar athyglina vel, sækist eftir henni, er alltaf kaldur sem klaki og er haldinn óbugandi vissu um eigið ágæti og góðar gáfur. þessi týpa á oft til hnyttin tilsvör við öllum fjandanum en á til að rugla orðatiltækjum og málsháttum a'la bibba á brávallagötunni. gæti verið lélegur í stafsetningu
grúskarinn er týpa sem á í ástarsambandi við bækur og upplýsingabrunna ýmiskonar. hann veit margt um fáránlegustu hluti og er mjög vinsæll í spurningalið. hann er góður spjallari þegar rætt er um hans áhugasvið, en kann oft á tíðum betur við sig í fortíðinni en nútíðinni.
enn önnur gerð fólks er þessi sem er alltaf að reyna að þóknast öðrum. þessi týpa segir yfirleitt aldrei nei við neinu og fer stundum útí hinar undarlegustu aðgerðir í þeim tilgangi að hjálpa, geðjast og redda öðrum. þessi týpa er heldur ekki góð í að sækjast eftir hjálp og henni þykir óþægilegt að láta hafa fyrir sér. fólki í þessum flokki þykir erfitt að lenda í deilum og hún er vís með að láta vaða yfir sig til þess að forðast vandræði og vesen. hún fær líka sting í hjartað þegar hún upplifir eða hana grunar að einhverjum líki ekki við hana og þann sting getur verið erfitt að losna við.
hún þarf að læra að brynja sig og hleypa ekki hvaða rugli sem er inná sig.
einhverra hluta vegna held ég að ég tilheyri þessari síðastnefndu týpu. hreint út sagt ekki auðveld staða.

Engin ummæli: