drífur nú ýmislegt á drifhvíta daga mína. dreif ég mig heim úr vinnu í gær og hugðist drífa upp brekku þá er leiðir ökufólk af kópavogsbraut uppá bústaðaveg. dreifði þá eitthvað athygli minni eitt stundarkorn þar til gerði ég mér grein fyrir þeim ósköpum að bifreið sú er fyrir framan mig var reyndist kyrrstæð fyrir aftan bilaðan bíl sem var verið að laga en hún gerði á engan hátt grein fyrir stöðu sinni sem slík. ég sá ekki merkingar bilaða bílsins vegna þess að hinn var fyrir. dreif ég mig þá að hemla og náði því í tæka tíð áður en framendi bifreiðar minnar rækist á afturenda kyrrstæðu konunnar. vildi þó ekki betur en svo en konan er að baki mér ók reyndist síður hröð í hemlunarhreifingum sínum og krumpaðist þá litli yarisinn saman á afturendanum á mexíkönsku hondunni minni. sá bíll hefur greinilega verið smíðaður til að þola álag. annað en hálsliðirnir á mér sem eru hálf krambúleraðir eftir höggið.
fylgja má sögunni að kyrrstæða konan hvarf á braut í skyndi er hún sá slysið og sýndist mér hún hálf flóttaleg til augnanna. sú er á afturenda minn rakst reyndist aka um á bílaleigubíl sem hún var einmitt á leiðinni að skila er hún krumpaði hann saman á mexíkönsku hondunni.
svona fór nú um bílferð þá.
ég spyr: hver er hin seka? sú sem var á kyrrstæða bílnum á miðri kópavogsbraut? ég sem kom á ferð og stoppaði skyndilega? eða sú sem náði ekki að stoppa og klessti á?
einhverra hluta vegna veldur þessi spurning mér vissu hugarangri...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli