sunnudagur, apríl 27, 2008

eitthvað er skammtímaminnið farið að stríða mér. um daginn hringdi ég í systur mína til að segja henni eitthvað sem mig hafði langað að spjalla við hana um en loksins þegar ég náði í hana gat ég ekki fyrir mitt litla líf munað hvað það var sem ég ætlaði að segja. og núna rétt áðan opnaði ég blorgsíðuna mína til að segja frá einhverju gasalega skemmtilegu, svo ákvað ég fyrst að klára að semja prófið sem ég var að gera. og núna man ég engan veginn hvað var svona merkilegt.
reynum að rifja upp... það var örugglega ekki um að tvo daga í röð höfum við mæðgur þurft að veiða risavaxnar randaflugur í stofunni okkar og skutla þeim út um gluggann. það var ekki heldur um að ég er alveg að verða komin í sumarfrí. ekki ætlaði ég að skrifa um konuna sem fór á veitingastaðinn um daginn og þakkaði makanum fyrir að opna þennan stað þar sem hann hefði sál og að hún sjálf sæi lengra en annað fólk. hvað sem það þýðir nú. ég þykist alveg viss um að ég ætlaði ekkert að rausa um viljastyrksleysi mitt sem gerir mér lífsins ómögulegt að hætta að sulla í nammi og gosi þó að skynsemi mín segi mér að stunda heilsusamlegt líferni. ég hefði kannski ætlað að nefna að amma mín átti afmæli í gær, en það var samt ekki aðalmálið.
a jú, nú man ég það. það var brunalyktin...
semsagt... í morgun, eldsnemma, svo snemma að barnatíminn var ekki einu sinni byrjaður, vakti dóttir mín mig. þar sem ég staulaðist úfin og óskýr fram fann ég ógeðslega kúkalega brunalykt sem lá yfir öllu. ég opnaði glugga í stað þess að verða stressuð, hlaupa út og vekja alla. sem er sennilega það sem skynsamt fólk veit að það á að gera þegar það finnur megna brunalykt.
nema hvað... svo fór ég bara aftur að sofa enda ansi úfin og óskýr.
einhverju síðar þegar ég vaknaði fyrir alvöru fann ég að lyktin lá enn yfir öllu og opnu gluggarnir höfðu ekki skipt miklu máli. fjúff sagði ég og opnaði svaladyrnar.
svo fórum við bara í sund og höfðum það fínt.
nokkru löngu síðar komum við heim og viti menn. þarna var súra brunafýlan og í stigaganginum var hún sérstaklega slæm. og við bönkuðum á dyr sem engar opnuðust.
þá datt okkur í hug að bjalla í hundraðogtólf til að fá að vita hvað væri best að gera í stöðunni.
núnú, stuttu síðar birtist lögreglan sem bankaði uppá hjá undarlega einfaranum á neðri hæðinni. hann opnaði og þegar hann var spurður hvort hann vissi um upptök fýlunnar viðurkenndi hann kæruleysislega að hafa brennt hafragrautinn sinn.
jedúddamía segi ég. hvusslags eiginlega hafragrautur. hvusslags eiginlega bruni hvusslags eiginlega tími til að vera að sjóða hafragraut fyrir klukkan sjö á sunnudagsmorgni. hvusslags eiginlega vitleysisgangur erðetta?

hugmyndir að menningarnæturviðburði á sólpalli söntu maríu óskast.

Engin ummæli: