í gær skrifaði ég langan pistil og þann pólitískasta sem ég hef nokkurntíman gert. svo strokaðist hann óvart út. í pistlinum atarna sagðist ég vera algerlega á móti því að nemendur hafi aðgang að internetinu á meðan þau eru í kennslustundum. þeir sem eru ósammála mér segja að netið gagnist við verkefnavinnu og að unglingar hafi alltaf verið latir og utanviðsig hvort eð er. ég get alveg kvittað undir það að einhverju leyti en mér er samt skít sama. ég held að núna fari ástandið bara versnandi og margir sem annars hefðu hlustað og amk gert eitthvað í kennslustundum eru núna fastir á myspace, msn, facebook og í tölvuleikjum. ég hef horft uppá heilan bekk þar sem ein manneskja var að hlusta á kennsluna og hinir voru staddir í öðrum heimsálfum - andlega. ég hef horft uppá krakka falla í fögum og úr skóla af því að þeir áttu einfaldlega ekkert í aðdráttarafl netheima þar sem allir eru geggt kúl og ógsla spennó. ég hef horft uppá krakka verða brjálæðislega fúla yfir að mega ekki vera á netinu í kennslustundum þegar engin þörf var fyrir netið í tengslum við efni tímans. ég hef horft uppá kennara eyða ómældum tíma í að berjast við að allir loki tölvunum í tímum hjá þeim. ég hef horft uppá krakkana nota netið til að redda sér í gegnum fög án þess að læra eða skilja hvað þeir eru að gera (sbr. þýðingarvélar þar sem öllu er skutlað inn á ensku og svo er útkomunni skilað og hún er oftar en ekki tóm steypa). ég hef horft uppá ritgerðir sem eru stolnar í heilu og hálfu lagi og verkefni þar sem ekkert er gert nema koppí peista.
ég veit að svindl í skóla hefur verið til áður og verður alltaf til. ég er bara að segja að það virðist hafa aukist.
semsagt. á þeim fjórum vetrum sem ég hef kennt í framhaldsskóla hef ég komist að þeirri niðurstöðu að krakkarnir ættu ekki að hafa netaðgang í kennslustundum. fyrirgefðu stína en þetta finnst mér bara. framtíðin minn rass. hormónahlaðnir áttavillingar hafa ekki sjálfsaga í að nota þetta rétt og netið er að mínu mati bara að skemma námsárangurinn fyrir of mörgum.
og hananú.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli