þriðjudagur, apríl 29, 2008

eitthvað var ég óvenju fersk í morgun þar sem ég vippaði mér í sokkabuxur og kjól. vappaði svo létt í spori úr húsi og í bíl og úr bíl í hús. vipp, vapp og vupp.
hér á vinnustaðnum flaksaðist kjólfaldurinn þar sem ég spígsporaði um langa ganga og mér þótti ég svaka sumarleg og fín.
það var samt alltaf eitthvað að naga mig. ég gat engan veginn áttað mig á hvað það var en það var eitthvað.... einhver óskýranlegur ferskleiki. frelsi. ég var eitthvað svo náttúruleg.
þangað til ég fattaði hvað það var. ég gleymdi brjóstahaldaranum á rúminu heima. það hlaut eitthvað að vera. og nú er ég svo hrikalega meðvituð að ég þori varla að hreyfa mig.
kannski væri bara hollt að venja sig af þessu. vera stundum au natural. og vera skít sama. sumum er sama. ekki mér. bölvaðri menningunni hefur tekist að troða brjóstaþvingunartólum sínum uppá mig og ég er hreint ekki eins frjáls og ég þykist vera.
svo hlógu dönskukennararnir að mér... ég tala nefnilega stundum of mikið og það sem hefði getað verið algerlega ósýnilegt er nú á allra vitorði. ég er nefnilega gaurinn sem kemur inná kennarastofu og segir ,,vitiði hvað kom fyrir mig?..."

Engin ummæli: