það er eitthvað svo fáránlega fáránlegt hvað dagarnir eru fljótir að líða á þessum síðustu og verstu tímum. sérstaklega eftir að ég komst í svona vinnu þar sem varla er tími til að hangsa á netinu og dútla. alveg magnað hvað vinnudagurinn flýgur og svo þegar ég er á leið heim man ég allt í einu eftir því að ég náði ekkert að blogga. heima er ég svo ekki með tengingu þannig að ég bora blogginu inn í lengstu frímínúturnar bara svona til að stirðna ekki alveg. spurning um að koma tengingunni heim aftur áður en jólafríið byrjar. við sem kennum fáum nefnilega jólafrí sko... muahaha...
nema hvað, ég átti semsagt þrítugsafmæli á mánudaginn. fékk kökur og kórónu í vinnunni í hádeginu og var alveg að upplifa daginn minn. (ég er afmælissjúklingur og fæ gífurlegt kikk útúr þessum eina degi ársins sem er minn, minn, minn...) nema hvað, eftir vinnu fór ég aðeins í bæinn og labbaði um með andlegt afmælisskilti og vonaðist til þess að fólk myndi biðja mig um kennitöluna mína, sem reyndar enginn gerði og þó svo að einhver hefði gert það hefði sú manneskja að öllum líkindum ekki kveikt á perunni og fattað að óska mér til hamingju. hlutur sem ég geri alltaf enda er ég að hugsa og hlusta þegar fólk segir mér kennitölurnar, ég veiti jafnvel hamingjuóskir nokkra daga fram eða aftur í tímann... en nema hvað... mér semsagt tókst ekki að kreista hamingjuóskir útúr grunlausum samlöndum mínum en ég var samt voða ánægð með mig. eftir smá rúnt fór ég og sótti síðburðinn í leikskólann og ætlaði að hvíla okkur heima í smá tíma áður en allt liðið yrði pússað upp og farið með fríðu föruneyti út að borða.
á leiðinni inn um dyrnar heima hjá okkur gleymdi ég hlutverki mínu sem grípari eitt augnablik, barnið rann í tröppunni og datt á andlitið á gangstéttina þar sem hún náði sér í vænan heilahristing.
afgangurinn af afmælisdeginum fór í sneiðmyndatöku, bið, lækna, hjúkrunarfræðinga og hræðslu.
kom heim í ískalt hús rétt um klukkan 23, en þá höfðu ofnar verið kaldir allan daginn sökum lagnaframkvæmda í götunni og ég hefði allt eins getað tjaldað úti í garði, slíkur var kuldinn.
í gær fékk ég svo spennufall þar sem stressið vegna barnsins með heilahristinginn og glóðuraugað kom fram auk vonbrigðanna yfir ónýta afmælisdeginum sem ég hafði beðið svo lengi.
og ég grét
Engin ummæli:
Skrifa ummæli