fimmtudagur, nóvember 25, 2004

í gærkvöldi bauð sú einhenta gömlu grunnskólavinkonunum heim í síðbúið afmæliskaffi. notaði að sjálfsögðu fingurinn sem afsökun fyrir að vera ekki búin að skera niður voða lekkerar parmaskinku-pestó-miðjarðarhafssnittur einhverjar, baka stórkökur og smákökur og blanda exótískan sólardrykk með asísku ívafi (það er nefnilega ákveðin pressa að falla ekki í skuggann með veitingar eftir allar gestgjafa-meistaraverkaveislurnar sem herjað hafa á allt þetta merka þrítugs-ár). ég rölti semsagt í búðina með gula rangeygða svíninu og keypti brownies, rjóma, jarðarber, súkkulaðirúsínur, hraunbita, æðibita, gosdrykki og snakk. þessu hrúgaði ég svo á borðið óskaplega pent (fatta reyndar núna að ég gleymdi servíettum) og dömurnar sýndust mér alveg sáttar þrátt fyrir skort á fágun, hollustu og listrænum metnaði í veitingavali.
nema hvað, umræður kvöldsins voru á léttu nótunum, börn, slys á börnum (mig grunar að ég hafi átt þátt í að koma þeim þræði af stað), vinnustaðir og heimilisstörf. algeng umræðuefni og allskostar ópólitísk.
ekki get ég munað skýrt hvernig talið barst að skoðanaskiptum fólks á netinu, spjallþráðum og öllum þessum litlu og ekki eins litlu samfélögum sem hafa myndast innan þessa ó-raunveruleika sem internetið er.
vinkvennahópurinn var greinilega mestallur ókunnugur þessum skika tilverunnar og áhugalaus í ofanálag. gott ef ég skynjaði ekki vott af fordómum gagnvart þeim sem eyða tíma sínum, orku og vitsmunum í að taka þátt í og taka mark á öllum þeim samskiptum sem fram fara hérnamegin veruleikans.
(ég hélt mig inni í bloggaraskápnum eins og ég geri yfirleitt þegar átt er við jarðbundna).
svo fór ég að spegúlera... sú eina innan hópsins sem ráfar hér um víðan völl, kíkir á bloggsíður, veltir fyrir sér umræðuþráðum og skiptir sér af er einmitt sú eina sem ég umgengst umfram skyldumætingu í saumaklúbba, enda er hún sú eina sem ég get á ýmsan hátt samsamað mig við (gáfuð, smekkleg, vel lesin, góðhjörtuð, fríð, hugmyndarík, þroskuð og uppfull af manngæsku). og svo hefur hún líka heilbrigt sjálfstraust eins og ég.
nema hvað, hinar dömurnar eru á öðrum skala hvað hugmyndafræði tilverunnar varðar og nú velti ég því fyrir mér hvort það séu bara/aðallega ákveðnar týpur fólks sem taka þátt í internetmenningunni...eða telur sér trú um að það sé til fyrirbæri sem mætti kalla internetmenning... eða hefur þörf fyrir að tilheyra einhverskonar internetmenningu... eða eitthvað...


Engin ummæli: