miðvikudagur, ágúst 03, 2005

ég fór með makann til læknis í morgun. hann hefur nefnilega verið sárþjáður í neðra baki og ég pantaði fyrir hann tíma hjá heimilislækninum þegar ég gat hreinlega ekki horft uppá þessa hörmung lengur. (verkina sko, ekki makann).
núnú, sem oft og endranær var heimilislæknirinn í fríi þannig að okkur var vísað til staðgengils hans sem reyndist vera hávaxinn, hárlítill ungur maður talsvert yfir kjörþyngd. ósköp indæll og eiginlega bara svolítið bangsakrúsílegur. allavega jafn krúsílegur og hárlitlir hávaxnir menn yfir kjörþyngd geta orðið.
nema hvað, hann teygði og tosaði makann, lamdi hann í hnén, beygði hann fram og aftur, hægri og vinstri og ég túlkaði öll litlu læknisfræðilegu orðin sem makinn kannaðist ekki við að skilja.
það getur verið óheyrilega skemmtilegt að fylgjast með fólki tjá sig við útlendinga á íslensku, það verður eitthvað svo sniðuglega ýkt í líkamlegum útskýringum.
nema hvað, bangsímon skrifaði uppá verkjastillandi og bólgueyðandi og þuldi svo upp ýmiskonar ráð sem bakviðkvæmum ber að fara eftir í þeim tilgangi að forðast framtíðarverki. framtíðarverkir eru sko verkir sem eru ekki enn komnir en munu koma ef ekki er farið að áðurnefndum ráðum.
nema hvað, að upptöldum löngum lista ráða ákvað sá þungi að setja punktinn yfir i-ið með því að sýna okkur þessar líka fínu bakstyrkingaræfingar sem við ættum endilega að prófa. minn maður skellir sér með andlitið á hurðina, treður höndunum á sér á milli brjóstanna og hurðarinnar og teygir svo höfuðið eins og fimasti svanur í átt að okkur. þetta endurtók þessi elska um það bil sjö sinnum eins og til að leggja áherslu á orð sín um hvað þetta væri góð æfing, nema auðvitað ætti að framkvæma hana liggjandi á gólfinu.
þóttu mér þetta nú frekar skondin tilþrif en þegar ég leit mér á hægri hönd og sá hvar makinn faldi andlitið í höndum sér sökum óviðráðanlegs hláturskasts gat ég ekki haldið aftur af mér og fékk kjánafliss.
afgangurinn af læknisheimsókninni fór í að þurrka tár, sjúga upp í nef, forðast augnsamband við makann og reyna að stynja upp einhverri fáránlegri útskýringu á því hvers vegna við sætum þarna með hland í brókunum úr hlátri.
krúsilíus brosti bara að okkur en á svip hans tókst mér engan veginn að sjá að hann hafi gert sér grein fyrir raunverulegri ástæðu hláturkastsins. hann hefur sennilega bara haldið að útlendingurinn hafi prumpað.
þetta var hreint út sagt sú hressilegasta læknisheimsókn sem ég hef lent í.
og makabakið er allt að skána.

Engin ummæli: