fimmtudagur, ágúst 18, 2005

ég hefði sennilega átt að gerast verkfræðingur. gerði það þó ekki sökum stærðfræðifælni á háu stigi. fékk þá fælni um leið og einkunnirnar fóru niður í 6 og 5 í lokaáföngum framhaldsskóla en þá var mér semsagt ætlað að diffra og tegra en hugurinn var staddur í ástarbréfum til útlanda svo að ég diffraðist öll í klessu og tegraði mig út í horn. síðan þá hef ég staðið föst á því að ég sé óhæf til stærðfræðilegra hugsana.
reyndar er ég voða klár við að fatta allskonar reglur þegar á hólminn er komið, en ég hef forðast öll hin síðustu ár að leggja af stað á hólminn. þessvegna lærði ég félagsvísindi og tungumál og þess vegna ákvað ég að aðferðafræðin væri hryllingur. samt stóð ég mig ágætlega þar miðað við að hugurinn var duglegur við að telja mér trú um að ég væri ömurleg og þetta væri pynting.
nema hvað, pælingin um verkfræðina kemur til af því að hér í kennaravinnuherberginu er sko hlussu-málm-rimla-gardína sem slæst alltaf með hávaða og látum í glerhurðina þegar einhver stingur hausnum inn eða jafnvel öllum líkamanum.
í morgun féll dropinn sem fyllti minn annars risavaxna mæli og ég fór á vettvang þar sem ég safnaði saman kennaratyggjói, bréfaklemmum og rúllu af borða í íslensku fánalitunum. vopnuð þessum græjum tók ég til við að hneppa renna smella hnýta og voilá, nú má skella og vesenast án þess að í gardínunni heyrist múkk.
múkk eru hvimleið.
og nú sit ég hér með smækkaða hátalara í eyrunum og hlusta á suðrænu tónlistina mína og vonast til þess að einhver fari að drullast til að mæta og taka eftir meistaraverkinu svo ég geti barið mér á brjóst og sagst vera snillingur. (að sjálfsögðu væri ekki verra ef einhver tæki af mér ómakið og segði mig snilling að fyrra bragði, en ég er tilbúin til þess að gera það sjálf ef út í það fer).

hvar eru allir?

Engin ummæli: