þetta var nú meiri helgin. á föstudaginn duttu mér allar dauðar lýs úr höfði. bókstaflega.
ég var með tvær. og nit.
síðburðinum hafði þá tekist að dangla sínum ljósu mexíkanalokkum í eitthvað eða einhvern með pöddur í skallanum og ein þeirra hefur náð taki á höfuðleðri dótturinnar. nú og svo hefur verið stundað lúsakynlíf á höfði hennar og eggjum var verpt hirst og her. annað hvort hefur hún orðið fyrir massívu áhlaupi innflytjendalúsa eða þær hafa verið iðnar við kolann við að fjölga sér því að hún var með einar fimm og góðan slatta afkvæma í eggjum. og svo fékk ég náttúrulega afleggjara.
ég rauk í apótekið og hvíslaði laumulega að afgreiðslustúlkunni að ég þyrfti lúsasjampó. ,,ertu búin að finna lús?" spurði hún ekki hvíslandi. ,,já" hvíslaði ég. ,,Sigga, komdu aðeins, hvort er aftur betra að nota olíuna eða sjampóið þegar lúsin er fundin?" gólaði sú sloppaklædda aftur fyrir sig og gerði mér ansi erfitt fyrir að forðast augnaráð raðarkollega minna.
ég fór út með sjampóið og reyndi að ganga bein í baki eins og stoltur og herskár lúsaveiðimaður en ekki eins og laumuleg subbubarnamóðir.
og svo var þvegið og skrúbbað og nuddað og plokkað.
og okkur duttu allar dauðar lýs úr höfði.
nú bíð ég bara eftir njálgnum. þá fyrst verður gaman í apótekinu.
ps. ég komst að því að amma mín er haldin fordómum gagnvart lúsugum. henni þykir samt voða vænt um okkur...hehehe...
psps.lúsarsmit tengist ekki skorti á hreinlæti. bara svo þið vitið það, ha. ha!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli