í gærkveldi ákvað ég að söðla um, skipta um sjóndeildarhring, venda kvæði mínu í kross og láta til skarar skríða. ég settist niður með blýant og strokleður í hönd og stílabók á hnjám eftir að hafa ákveðið að prófa að stinga litlu tánni innfyrir veröld minnar kæru litlusystur. svo bjó ég til nokkrar teiknimyndasögur, eða svokallaða einrömmunga eins og skörungar innan stéttarinnar vilja víst kalla þá.
mér hálfpartinn brá þegar ég sá hvað ég er óhemju lélegur teiknari en ég fyrirgaf sjálfri mér þó hæfileikaskortinn þegar ég sá hvað fyrsta myndin var ógeðslega fyndin. allavega samkvæmt mínum fyndnimæli.
þá er sennilega fátt eftir í stöðunni annað en að leyfa einhverjum að sjá og verða svo fyrir vonbrigðum af því að enginn á eftir að hlægja jafn mikið og ég.
nú velti ég því fyrir mér hvort teiknimyndasöguhöfundar hlæi að eigin afrakstri.
ekki það að ég er svosem enginn teiknimyndasöguhöfundur, eiginlega frekar svona lítið eftirhermurassgat sem er að rembast við að vera memm.
nema hvað. lúsarleit hefur verið gerð að eftirlifandi lúsum en þær virðast semsagt hafa dottið okkur allar dauðar úr höfði um síðustu helgi. þökk sé guði í upphæðum.
svona breytast nú hádramatískar uppákomur oft í skondnar sögur úr fortíðinni. o sei sei...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli