þar sem við hjónaleysur stóðum með sitthvorn tannburstan í skoltunum fyrir framan baðherbergisspegilinn í morgun kom síðburður okkar galandi niður stigann til þess að tilkynna okkur að það væri einhver úti.
við hváðum á frekar tannkremsfullan hátt án þess að taka mikið mark á ábendingunni þar sem ekkert hafði heyrst í stórfenglegu ljónadyrabjöllunni.
sú stutta hætti ekki að tönlast á gestinum þar til ég stakk höfðinu upp á efri hæðina og sá þá í gegnum útidyrahurðarglerið móta fyrir hávaxinni mannveru sem stóð þar grafkyrr. mitt fjölhæfa ímyndunarafl fór á fullt og ég greip til gömlu góðu myrkfælninnar sem hefur fylgt mér alla mína hunds og kattartíð. og þorði ekki til dyra.
þá kom matsjóinn minn upp til að ganga úr skugga um þetta furðufyrirbæri og gott ef ég sá ekki örla á smá smeykelsi í augum hans líka þar sem hann óð til dyra.
fyrir utan stóð hávaxinn grannur maður í svartri hempu. hann reyndist vera argentískur kaþólskur trúboðaprestur sem við reyndar þekkjum bæði og hann hafði semsagt bara staðið þarna þolinmóður eftir að hafa togað í tunguna á ljóninu sem greinilega er eitthvað að gefa sig. (dyrabjallan sko)
nema hvað, hann var semsagt boðinn velkominn eftir að tannkreminu hafði verið spýtt í nærliggjandi vask og honum boðið uppá kaffisopa.
tilgang heimsóknarinnar skildi ég ekki þá og skil ekki enn, en þarna fór morgunn okkar sem átti að verða svo próduktívur í að hlusta á manninn útskýra fyrir okkur heimspekileg rök fyrir tilvist guðs og ójarðnesk röksemdafærsla fyrir því að við hreinlega verðum að gifta okkur og láta skíra börnin okkar.
það er víst ekkert vinsælt í himnaríki að búa í svona syndabæli eins og við virðumst gera.
þegar hann fór útí útskýringarnar á því af hverju kaþólska kirkjan er í raun og veru mjög kvenvænleg fór ég eiginlega bara að glotta. en raunin virðist vera sú að það hafi verið djöfullinn sem vildi spilla fyrir fullkominni og heilagri sköpun guðs með því að hvísla því að konum að konur og menn ættu að vera eins og jöfn að öllu leyti en þá skapast víst einhver órói sem kemur upp á milli karla og kvenna og veldur hjónaskilnuðum, svona svipað og hann gerði í eden, enda eva og allar konur auðtældar.
má bjóða einhverjum morgunprest?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli