hananú, þá er tækið komið í samband og farið að virka aftur. magnað hvað við erum flest orðin háð þessari uppfinningu, rafmagninu. nú og hvað þá tölvunni. og þá skulum við ekki einusinni minnast á bílinn. eða símann.
nú er jafnvel svo komið að fólk er farið að rústa sumarbústaðarferðum (sem samkvæmt mínum skilningi voru upprunalega hugsaðar til að fá hvíld frá amstrinu), með því að fylla þá af rafmagnsgræjum, sjónvörpum, dvd spilurum, playstation og svo eru auðvitað allir með símann á sér, einn í hverjum buxnavasa eða veski.
þegar ég hugsa útí það þá þykir mér ástandið eiginlega hreint út sagt hrikalegt. mætti ekki flokka þetta undir hástig firringarinnar? við erum algerlega búin að týna úr hversdagsleikanum allri tilfinningu fyrir upprunanum, náttúrunni, landinu sem er undir húsunum og malbikinu sem við skelltum ofaná það alveg sjálf. við megum svosem eiga það að við hér á skerinu erum mörg hver dugleg við að rækta náttúruunnandann í okkur með því að skapa okkur náttúrutengd áhugamál. stundum reyndar bara í straujaðri golfvallanáttúru, en náttúru þó.
það að náttúran sé áhugamál er samt gott merki um að við búum ekki í henni. við förum útí hana við sérstök tækifæri. við leitum hana uppi. hún býr ekki hér.
magnaður andskoti.
segi ég og skrifa á fartölvuna mína þar sem ég sit í upplýstri og upphitaðri skólastofu í steyptu húsnæði ofaná þeim kafla malbiksins sem gárungar kusu að nefna faxafen í höfuðið á dýri og náttúrufyrirbæri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli