mátunarklefar fataverslana eru grimmir illgjarnir vondir og hættulegir. ég get ekki skilið hvaða sálfræði er að baki þeirri hönnun sem virðist vera allsráðandi í þessum skúmaskotum, en það hlýtur að vera einhver þar sem búðir eiga víst allar að vera úthugsaðar og spögulíseraðar með þeim tilgangi að fá grunlausa vegfarendur til að kaupa sem mest og sem dýrast.
mér þætti gaman að fá að heyra frá þeim sem datt í hug að útbúa mátunarklefa allra fatabúða landsins þannig að fólk fái sjokk við að sjá sjálft sig fölt á litinn, með bauga undir augum, hrukkur í andlitinu og appelsínuhúð hreinlega allstaðar. eins og það sé á það bætandi eftir að litla útlitsdýrkandi sálin kemst að því að buxurnar í venjulegu stærðinni passa engan veginn.
það er ekki hollt fyrir viðkvæm sálartetur að sjá líkamann sinn eins og illa vafða rúllupylsu í of þröngum gallabuxum og illa hönnuðum toppi sem kreistir upphandleggina í allar áttir, og hvað þá í þessari djöfulsins tannlæknabirtu sem lætur allt líta út fyrir að vera enn ljótara en það er í eðlilegu ljósi.
það hefur komið fyrir mig oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að ég fer óð og uppvæg inn í fataverslanir, finn föt sem mér þykja falleg og á viðráðanlegu verði, storma inn í mátunarklefann með fínan bunka af dóti en enda á því að passa ekki í neitt af því sem ég tók með mér og með stórt stórt sár í hjartanu eftir að hafa séð sjálfa mig á nærbuxunum í mátunarklefanum. svo hef ég farið út döpur, sár og leið og fengið mér að borða eitthvað sem er alls ekki á listanum hjá heilbrigðisfanatíkusum.
þegar einhver opnar búð þar sem fötin eru það vel hönnuð að ég passi í mínar stærðir, er ekki of dýr og mátunarklefarnir bjóða uppá dimmer, þá skal ég verða fastur viðskiptavinur þar. amk á útsölum (kaupi nefnilega eiginlega bara föt á útsölum...ehe)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli