mánudagur, janúar 09, 2006

fór í partý á laugardaginn. svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þetta var partý með arabísku þema. liðið mætti skemmtilega uppstrílað og svei mér þá ef ekki hefði verið fyrir ljósu húðina og bláu augun hefði stór hluti gesta hreinlega getað verið frá einhverju arabalandanna.
núnú, við fengum að sjálfsögðu arabískan mat eldaðan af manni frá sýrlandi sem er víst að opna veitingastað þar sem heitir í dag kaffi puccini við hliðina á núðluhúsinu niðri í bæ, rooosalega góður matur og gaman að sitja á gólfinu við lág borð og eta með brauði og guðsgöfflunum. eini gallinn er sá að makinn minn sem ekki fór með hefur varla getað nálgast mig síðan sökum hvítlauskfnyks... en það var samt alveg þess virði því þetta var svo góður matur.
og svo kom magadansmær mjúk og fögur sem hristi sig fyrir okkur og kenndi okkur smá hristing. voða gaman.
nú og svo var sungið, drukkið, dansað og fleira sem er engan veginn í frásögur færandi.
það sem ég ætla að færa í frásögur er heimferðin. gerði ég það að gamni mínu að rölta ein heim um klukkan þrjú á aðfaranótt sunnudags. rölti ég niður rúmlega hálfan laugaveg klædd í serk frá marokkó með palestínuslæðu bundna á mjög arabískan hátt um höfuðið þannig að hann huldi hár mitt til heiðurs allah og ég var eiginlega bara öll voða arabísk í útliti, svartmáluð augu og svona. til að gera venjulega sögu aðeins styttri lenti ég semsagt tvisvar í því á þessari stuttu leið að yrt var á mig eingöngu sökum þess að ég leit út fyrir að vera arabi. í fyrra skiptið vatt sér að mér pissufullur ljóshærður gaur og með nef sitt of nálægt mínu nefi drafaði hann ,,salam aleikum". ,,aleikum asalam" svaraði ég og hélt mína leið með brennivínsfýluna af gaurnum fasta í nösunum og persónulegt rými mitt brákað.
þar sem ég var komin neðar á laugaveg gekk ég framhjá öðrum ljóshærðum slána sem horfði voða skítalabbaglottslega á mig og um leið og ég kom framhjá honum og vini hans heyrði ég hann segja hátt og skýrt ,,sjáiði, þarna er múslimi" (í tóntegund sem var allt annað en vingjarnleg).
mér var hreinlega hætt að standa á sama, og leyfist mér að taka fram að það var tiltölulega fátt fólk á ferðinni á þessari leið sem ég fór en samt tókst mér að lenda í tveimur án þess að horfa eða yrða sjálf á neinn.
hvað er málið?

Engin ummæli: