lokapróf á morgun. svo hægist um hjá mér næstu tvær vikurnar og þá get ég einbeitt mér að húsaskoðun.
fjölskyldan mín öll (og þá á ég við minn eigin afleggjara, foreldra mína, systur og mág), er að fara að flytja í apríl og maí. það verður nú meiri endemis vitleysan get ég sagt ykkur, enda skyldmenni mín ekki þekkt fyrir að henda dóti.
systir mín á meðal annars hið ótrúlegasta smádót og furðulegheit sem hún hefur sankað að sér síðan hún var...tja... tveggja ára, og það er sjaldgæft að hún hendi. reyndar gerðist það hér um árið að hún hélt garðsölu ásamt geðóðum handrukkara í garðinum á bakvið hjall nokkurn sem ég bjó í, en í þeirri sölu seldi hún hina ýmsu muni úr æskusafni sínu. nokkra þeirra á ég sjálf reyndar í dag því ég tímdi ekki að hún myndi selja þá...en það er önnur saga. ég leyfi mér þó að efast um að hún eigi eitthvað minna dót í dag en hún átti fyrir garðsöluna atarna.
núnú og foreldrar mínir eru annað keis útafyrir sig. þar sem þau hafa reynt að flytja sem minnst síðustu tuttuguogsex árin, hefur dótið eins gefur að skilja hrannast upp, enda nóg af geymsluplássi á þeim bænum.
móðir mín á tildæmis hið ótrúlegasta safn sænskra bóka um líkamsmeðvitund og allskyns skandinavískrasjúkraþjálfaraheimspeki, en hún bliknar þó við hlið föðurins sem fær taugakippi í andlitið ef minnst er á að henda einhverju af því sem finnst í skúmaskotum heimilisins (þó svo að hann hafi verið búinn að steingleyma tilveru hlutanna þangað til spurt er hvort megi henda).
það er þessvegna sem enn má finna uppi á lofti mao tse tung complete works, stalin complete works, karl marx og frederic engels complete works, húa kúa feng complete works (eða ekki), serki frá marokkó, ýmis dreifirit ungra kommúnista frá sjöunda áratugnum, röndóttar skyrtur og fleira og fleira. já og svo má ekki gleyma sjóreknu netakúlunum sem systirin hirti fyrir einhverjum áratug síðan til að nota í listaverk sem varð aldrei til og eru enn inni í skáp hjá foreldrunum rétt hjá kassanum með fötunum sem mér þóttu flott þegar ég var með duran duran plaggöt í herberginu mínu.
sökum einhverrar andlegrar vanstillingar hef ég skuldbundið mig til að hjálpa til við yfirvofandi flutninga umfram mína eigin.... það verður hægara sagt en gert.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli