fimmtudagur, apríl 05, 2007

í dag er skyrdagur. á maður þá að borða bara skyr?, spurði síðburðurinn minn þegar ég var að útskýra fyrir henni páskana. fjögurra ára fólk er mjög skemmtilegur þjóðflokkur. ellefu ára fólk er líka skemmtilegur þjóðflokkur, en á mjög ólíkan hátt. feis!
ellefu ára fólk á til að hafa of miklar áhyggjur af því hvað fólk heldur. þess vegna geta hinir ýmsu hlutir sem áður voru einfaldir orðið óendanlega flóknir og erfiðir.
fjögurra ára fólki gæti ekki verið meira sama um hvað fólk heldur. þess vegna geta hinir einföldustu hlutir orðnir uppspretta hinna kjánalegustu aðstæðna.
dæmi... ég er með einstaklingum af báðum þjóðflokkum í grænmetiskælinum í bónus. fjögurra ára aðilinn tilkynnir mér með fullum raddstyrk (og rúmlega það) að hún þurfi að kúka. ég glotti bara, enda löngu hætt að vera ellefu ára. sá sem er það ennþá þykist vera að skoða tómata um leið og hann sendir systur sinni stingandi augnaráð og segir henni milli samanbitna tanna að hætta að tala upphátt um að þurfa að kúka. hitt eintakið hefur ekki náð þeim þroska sem þarf til að skilja svona samanbitin skilaboð og heldur áfram að spögúlera upphátt hvernig best sé að leysa kúkaþörfina sem við erum öll sammála um að hafi ekki verið vel tímasett.

það er að ég held mikið auðveldara að vera fjögurra ára en ellefu ára.
samt er líka fínt að vera þrjátíuogtveggja en þá er kúkur í grænmetiskælinum aðallega skipulagsvandamál.

Engin ummæli: