mánudagur, apríl 23, 2007

þegar ég stend í þeim sporum að vera að flytja úr landi gerist alltaf eitthvað skrýtið. það blossar upp í mér einhver svakalegur íslendingur og ég fyllist einhverri óskilgreindri nostalgíu sem ég upplifi annars aldrei þegar ég er búsett hérna.
núna er ég tildæmis með á heilanum að eignast stóra feita vísnasöngbók, eða hvað hún heitir nú, svo að ég geti sungið fyrir og með börnunum mínum. núna er mér allt í einu mikið í mun að þau kunni að syngja lög sem ég hef hingað til ekki haft neinn áhuga á að þau læri frekar en eitthvað annað. svo þykir mér mjög mikilvægt að þau eignist teiknimyndir, bækur og geisladiska á íslensku svo að orðaforðinn þeirra takmarkist ekki við daglegt líf með mér. (sem er reyndar lógískt)
þegar ég er hve verst í þessu ástandi ímynda ég mér börnin mín og mig í ullarhosum uppi í sveit að leika með bein og skeljar, tínandi ber og þefandi af fíflum.
ég horfi upp í gráan himininn og þefa út í loftið með brjóstið fullt af ættjarðarást.
ég sé fegurðina í ryðguðu bárujárni, berrössuðum trjám og ljóshærðum börnum með hor í nös. mér þykir kaldur vindurinn þægilegur og ég glotti yfir pirruðu fólki á götum úti.
þegar ég bý á íslandi og er ekkert að fara neitt hef ég ekki áhyggjur af því hvaða lög börnin mín kunna að syngja. ég er dugleg við að láta þau horfa á teiknimyndir á spænsku vegna þess að það er gagnlegt að kunna spænsku, og ég fer næstum aldrei með þau útfyrir bæinn. ég horfi aldrei upp í gráan himininn og þykir lyktin af landinu ekkert merkileg. ég pirra mig á ryðguðu bárujárni, berrössuðum trjám og ljóshærðum börnum með hor. mér þykir kaldur vindurinn óþolandi og ég verð pirruð á pirruðu fólki á götum úti.

kannski kann ég best að meta landið þegar ég er á leiðinni í burtu. ætli það væri þá ekki sniðugt að vera bara alltaf á leiðinni út. nú og svo þegar ég fer út hlakka ég til að koma aftur og þegar ég kem aftur get ég ekki beðið eftir því að fara út.

það er ekki auðvelt að vera erfiður....

sem minnir mig á það. hverja þarf ég að kveðja?

Engin ummæli: