þriðjudagur, apríl 10, 2007

í gærkveld vildi síðburðurinn ekki klára matinn sinn. ég pressa ekki á hana að klára ef hún er södd, en hún kláraði ekki einu sinni helminginn svo að ég var að pressa.
,,og hvað, á ég bara að henda þessu öllu í ruslið?"
,,já"
,,veistu að það er fullt af krökkum í útlöndum sem myndu fara að gráta ef þau sæju þig henda svona miklum mat í ruslið"
,,af hverju?"
,,af því að þau fá aldrei svona mikinn mat og eru oft voða svöng"
,,af hverju?"
,,af því að þau eiga ekki peninga til að kaupa mat og þá fá þau bara ekkert að borða"
,,ég trúi þér ekki"
,,ha, hvers vegna ekki?"
,,af því að þau geta bara farið í hraðbankann!"

í kveld lá ég hjá sömu fjögurra ára manneskju og var að syngja sofðu unga ástin mín. upp úr því er mér virtist þurru sá ég allt í einu glitta í sorgmæddan svip og tár í auga.
,,mamma"
,,já"
,,af hverju dó jesú?"
,,mmm... af því að það voru vondir karlar sem sögðu að hann væri vondur"
,,var hann bara hengdur út á snúru og varð svo rosalega svangur og dó svo bara?"
,,hann var hengdur á kross, en jú jú, hann dó"
,,hvað er kross?"
,,svona (geri kross með puttunum) úr spýtum"
,,hvar fundu þeir kross?"
,,þeir smíðuðu hann örugglega bara"
,,hver kann eiginlega að smíða flugvélar og þyrlur?"
,,fólk sem hefur farið í skóla til að læra það"
,,kann pabbi að smíða svoleiðis?"
,,hann hefur aldrei farið í svoleiðis skóla"
,,hann sagði mér einu sinni að hann kunni að smíða flugvélar, kannski bara litlar flugvélar og litlar þyrlur, bara með fjórum gluggum fyrir okkur fjögur"
,,já kannski...en farðu nú að sofa"
,,voru mamma og pabbi hans jesú ekki döpur þegar hann dó?"
,,jú ábyggilega"
,,þau verða þá bara að eignast annað barn og skíra það bara jesú líka"
,,þau eignuðust held ég ekki annað barn, en þetta var fyrir svo rosalega mörgum árum síðan"
,,hvenær"
,,í gamla gamla daga"
,,hvar átti jesú heima?, í hvernig húsi?"
,,hann átti heima langt í burtu, ég man ekki hvað landið heitir"
,,átti hann heima í útlöndum?"
,,já, langt í burtu"
,,oh, ég vildi að hann átti heima á íslandi"
,,nei"
,,hvernig talaði hann þá?"
,,bara svona eitthvað arhamm arkhalamm"
,,og var hann svo bara hengdur út á snúru og varð svo rosa svangur og dó svo bara?"
,,hann var hengdur á kross, en já... farðu nú að sofa"
,,af hverju gáfu mamma hans og pabbi honum ekki bara eitthvað að borða í munninn svo hann myndi ekki deyja af því að hann var svo svangur?"
,,kannski var bara einhver að passa að hann fengi ekki að borða"
,,ef ég verð hengd á snúru vilt þú og pabbi þá gefa mér að borða í munninn?"(tár)
,,þú þarft ekkert að hafa áhyggjur af því elskan mín því að þú verður aldrei hengd á snúru, þetta var bara í gamla gamla gamla daga, og svo ert þú líka svo góð"
,,var jesú ekki góður?"
,,úff... jú, það voru bara einhverjir sem héldu að hann væri vondur.... en farðu nú að sofa"
,,aumingja jesú..." (sniff)

ætli páskarnir hafi ekki verið ræddir í leikskólanum í dag.....

Engin ummæli: