föstudagur, október 26, 2007

núna er ég í kennaraháskólanum og þar eru kommur á lyklaborðunum í lagi mér til mikillar gleði.

en ég er semsagt komin heim. ferðin var skemmtileg, stundum erfið, en alltaf skemmtileg. við flugum til njúv jork þar sem brother louie sótti okkur á flugvöllinn og við þurftum að bíða lengi í röð eftir leigubíl útaf því að einmitt þennan dag var verkfall leigubílstjóra. gífurleg heppni þar á ferð. svo fórum við til lóu og geymdum dótið okkar. tókum lest í bæinn einhvert á suðurhluta manhattan held ég, þar sem við átum, skoðuðum japanska dótabúð og borðuðum ís í eftirrétt. svo fórum við aftur ,,heim" til brooklyn og sváfum.
daginn eftir fórum við fyrst að kaupa körfuboltaskó handa frumburðinum svo að hann hætti að stressa sig, en það gerðum við á times square. dunduðum okkur eitthvað smá og skoðuðum ripley´s believe it or not safnið sem var fínt og flott og fullt af skrýtnu dóti. svo fórum við í kínahverfið og litlu ítalíu, sem ber nafn með rentu því hún er orðin mjög lítil, og þar átum við ítalskan mat og spjölluðum við nett uppáþrengjandi ítalskan þjón. en hann var fyndinn samt...
núnú, eftir gott rölt ákváðum við að taka lestina heim til að komast á réttum tíma á flugvöllinn. þegar undir jörðina var komið stoppaði svo lestin og við vorum föst neðanjarðar í góða stund innanum þreytt og mis-pirraða farþega sem síðburðurinn gladdi með hoppi sínu og hamagangi. upp komumst við í dagsljósið seint og síðarmeir og rukum heim til lóu að sækja dótið okkar og fengum svo mjög óhefðbundinn og ógulan leigubíl sem brunaði útá völl. svo biðum við í smá stund áður en við fórum inn til að komast á réttum tíma í vélina. seinna sá ég eftir að hafa flýtt mér svona mikið og kvatt lóu svona snemma því að bilun hafði orðið í einum hreyfli og vélardruslunni seinkaði um 4 klst. einhverra hluta vegna höfðu samgöngumál ekki verið mér í hag þessa dagana. núnú, við lögðumst á gólfið eins og hinir farþegarnir til að reyna að hvíla okkur og ég neyddist til að svæfa trylltan síðburðinn með valdi svo að hún réðist ekki á nærstadda og biti þá í ökklana í reiði sinni, en henni fannst þetta semsagt ekki skemmtileg, enda ansi þreytt. að lokum komumst við í vélina, ég með sofandi barn á öxlinni og röð af flugvallarstarfsmönnum á eftir mér berandi farangurinn okkar, og hún svaf alla leið til íslands. annað en ég sem er enn að ná mér eftir næturskort og tímamismun. en ég er semsagt mætt í skólann þar sem ég set upp gáfulegan svip á meðan kennarar tala. einhvernvegin líður mér samt eins og ég eigi ekki eftir að muna mikið...
en frímínúturnar eru búnar. er farin í tíma.

ps. mikið djöfulli er kalt úti!

Engin ummæli: