laugardagur, júní 28, 2008

hana. þar dró fyrir sólu.
ég var að horfa á dálítið áhugaverða heimildamynd. zeitgeist heitir hún. vantrúaður stærðfræðikennari nokkur sem ég þekkti var búinn að segja mér að horfa á hana fyrir löngu. ég hlýddi ekki fyrr en í gær. ég er hlýðin þó ég sé stundum seinhlýðin. hann lofaði mér í staðin að lesa draumalandið. ég vona að hann hlýði því einhverntíman.
ég horfði á aðra áhugaverða heimildamynd um daginn. 11th hour heitir hún. um náttúruna og svona. í henni kom margt áhugavert fram en það var þó ein lítil smá staðreynd sem settist í mig og situr enn í mér. þetta var eiginlega bara áminning frekar en nýjar upplýsingar. ég vissi þetta allan tímann. hafði bara ekki alveg hugsað málið almennilega. ekkert velt mér uppúr því. en þar sem ég lá og glápti á imbann kviknaði á einhverjum löngu sprungnum perum og ég hef varla getað hætt að hugsa síðan.
það sem rifjaðist svona eftirminnilega upp fyrir mér yfir bíómyndinni var staðreyndin að ég er dýr. þú ert líka dýr. en við erum sennilega ónáttúrulegasta dýrategundin af því að við erum svo mörg búin að múra okkur útúr náttúrunni, eða eiginlega frekar múra yfir hana og við erum búin að telja okkur trú um að við séum eitthvað annað. sumum finnst meira að segja ógnvænleg eða ógeðsleg tilhugsunin um að sofa úti í náttúrunni.
ekki myndi ég lifa af ein í skógi með ekkert annað en sjálfa mig berrassaða eins og dýrið sem ég er. ég er háð fylgihlutum og ó-náttúru. annars dey ég bara.
það mætti eiginlega segja að við værum dýr sem væru svo vitlaus að hafa lokað sig sjálf inni í dýragörðum og búið svo hnútana um að við getum ekkert lifað utan hans.
svo má ekki gleyma siðareglunum. það er ekkert lítið af þeim í gangi. og við hlýðum stillt og góð. þeir sem hætta að hlýða reglunum, skráðu og óskráðu, eru skrýtnir, hættulegir eða varla í húsum hæfir. restin af okkur er rosalega vel tamin.
ekkert dýrslegt í gangi. ekkert villt. ekkert verið að stelast út fyrir dýragarðinn. stelast til að brjóta reglurnar, vera dýr eins og dýr eiga að vera. þeir sem stelast út fyrir reglurnar lenda bara í vandræðum, eru jafnvel lokaðir inni af okkur hinum.
auðvitað er margt gott samt en ef ég ætla að fara lengra með það sem er að velkjast um í skallakorninu á mér myndi ég halda áfram aaaallt of lengi.
þannig að....
búið.

Engin ummæli: