komst að því í dag að ég er víst eitthvað slæm í c-5-inu og þar í kring. komst líka að því að c-5 er eitthvað í sambandi við hálsliðina. ég fór nefnilega til sjúkraþjálfara til að reyna að losna við króníska hálsríginn sem ég hef verið haldin síðan ég fékk yarisinn í rassinn. indæli sjúkraþjálfaradrengurinn lofaði að gera sitt besta til að hjálpa mér og sagði mér svo að ég væri langt frá því versta tilfellið sem hann hefði séð. sem er gott. það væri sennilega ekki gott ef ég væri týpan sem fær kikk útúr því að eiga bágt og safna sem lengstri sjúkrasögu.
sem minnir mig á það. einu sinni þegar ég var um 7 ára plataði ég augnlækni til þess að skrifa uppá gleraugu fyrir mig. greta vinkona mín var nefnilega með gleraugu og mér þótti það ansi svalt svo að mig langaði líka í svoleiðis. ég man nú ekki alveg hvernig ég fór að því að kría út ferð til læknisins en gleraugun fékk ég. gott ef það voru ekki gömlu glerin hennar gretu í nýjum umgjörðum. ætli ég hafi nokkuð notað þau, man amk ekki eftir því.
ég fékk svo aftur gleraugu þegar ég var í háskólanum og var alltaf að fá hausverk. gleraugun atarna liggja ansi lítið notuð inni í skáp og mig er farið að gruna að hausverkurinn hafi frekar stafað af þreytu og lestri þunglamalegra texta. og jafnvel stressi. ég sé nefnilega alveg skítvel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli