við erum ekki enn farin á ströndina. höfum verið á dinglumdangli hingað og þangað um bæinn en erum semsagt búin að pakka niður og munum leggja af stað á morgun á rúntinn. gistum heima hjá stærsta bróður í nótt eftir að drekka áfenga vökva, en það er um eins og hálfs til tveggja tíma keyrsla á milli heimila sem þó tilheyra bæði norðurhluta höfuðborgarsvæðisins.
í dag þar sem við keyrðum og keyrðum og keyrðum heimleiðis komst ég ekki hjá því að hugsa hversu svakalega þessi borg er komin langt frá náttúrunni sem hún eitt sinn var. jújú, það er sosum ágætis slatti af trjám hingað og þangað, en þessi tré eru samt eiginlega meira skraut en náttúrufyrirbæri. þau standa ofaní gangstéttum sem eru svo margar orðnar skakkar eftir tilraunir rótanna til að komast upp á yfirborðið.
í flestum hverfum má sjá eitthvað af trjám. í fátækustu hverfunum eru þau fæst og grámyglulegust. þar eru húsin svipuð og flest í zamora michoacan, gráir múrsteinakassar sem hefur verið klambrað upp á ótrúlegasta hátt, eða jafnvel bárujárn og pappakassar þar sem ástandið er allra allra verst.
gömlu hverfin skiptast í tvennt. þeim sem er vel viðhaldið og þau sem hafa fengið að grotna niður í tímans rás. ég bý í einu sem er því miður svolítið að grotna.
í þessum gömlu hverfum eru húsin rosalega falleg, með miklu skrauti í kringum glugga og dyr og fallega rimla fyrir (hér eru nefnilega rimlar fyrir öllum opum þar sem einhver gæti mögulega smeygt sér inn). húsin í miðbænum og þau sem eru frá tímum spánverjanna eru mörg hver ótrúlega flott, með ljónshausa og styttur í kringum glugga og hvaðeina.
þegar ég sé svona falleg hús sem eru að mygla klæjar mig í fingurna af tilhugsuninni um að fá að gera það upp, laga og færa í fyrra horf. úff hvað ég væri til í að stunda slíkt.
nema hvað, gömlu ríkustu hverfin eru gróðursælust. þar er hvert hús virki og lóðirnar stórar. þegar keyrt er um má sjá glitta í mjög fallegar villur á bak við ókleyfa múra og eftirlitsmyndavélar. þar er öllu haldið vel við.
í nýju ríku hverfunum er að finna háhýsi. allt voða bling bling eins og einhver myndi segja. stál og speglar. íbúðirnar eru fyrsta flokks og í bestu byggingunum má finna sundlaug, líkamsræktarsal, skrifstofur, hárgreiðslustofu, snyrtistofu, matvörubúð, veislusal, barnagæslu og ekki má gleyma gífurlegu eftirlits- og öryggiskerfi. margir kalla þetta gullbúrin, en þangað leitar nú fleira og fleira fólk af efri millistétt. svona eitthvað eins og ungt fólk á uppleið sem smalast saman í grafarholtinu.
ef ég hugsa nánar útí það þá er ég stödd í hverfi sem var einu sinni eitt af fínustu hverfunum í borginni. þegar tengdaafinn byggði það bjuggu hér í nágrenninu leikarar og frægt fólk. í næstu götu bjó meira að segja sjálfur fidel castro þegar hann var í útlegð að skipuleggja kúbönsku byltinguna.
hverfið inniheldur slatta af ósmekklegum nýlegri húsum og ég hef tekið eftir því að viðhald eldri húsanna er á uppleið. reyndar má finna góðan helling af húsum sem má laga, en ég hef þó séð það mikið mikið verra. í þessu hverfi er mikið um skakkar gangstéttar.
jamm og jæja.... svo skrifa ég bara meira þegar ég flækist í neti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli