mánudagur, maí 15, 2006

hér er voða mikið í gangi vegna forsetakosninganna sem verða 2. júlí næstkomandi. ein kona er í framboði en hún er ekki á meðal þriggja efstu samkvæmt könnunum. einn hinna efstu er andrés manuel lopez obrador, borgarstjóri höfuðborgarinnar. hans slagorð er hinir fátæku fyrst, í allra hag. hann er á vinstri kantinum. efri millistétt og efri stéttir eru ekki hrifnar af honum. mér þykir þó rökrétt hugsun að eyða glæpum og bæta þjóðfélagið með því að veita fátækum menntun og tækifæri. þá verða vonandi færri sem sjá sér hag í að ræna, skemma og meiða. hinir ríku eru hræddir um að peningarnir þeirra fari í subbulýðinn sem hefur ekkert gert til að eiga þá skilið.
um þetta má sosum deila fram og tilbaka og það er einmitt það sem fólk gerir hér þessa dagana.
annars gengur lífið sinn vanagang.
gaurarnir sem hafa verið hér úti á horni síðustu 20 ár að selja góða hirðisdót eru enn á sínum stað, gamli rakarinn á gömlu rakarastofunni í gömlu ljósbláu stuttermaskyrtunni sinni er þar sem hann á að vera, skósmíðahjónin er enn að laga skó og kjöt-, kjúklinga-, grænmetis- og ávaxtasalarnir eru allir á básunum sínum þar sem þeir hafa verið síðan ég kom hingað fyrst fyrir einum 13 árum síðan.
tengdaafi minn hefur ekkert elst síðan ég kynntist honum, hann er að verða 90 ára en hætti nýlega að nota staf. hann keyrir enn, reyndar svolítið eins og mister magú, en hann keyrir samt. sá gamli kemur hingað til tengdamóðurinnar í mat tvisvar í viku. þegar hann kemur segir hann okkur sögur frá því að hann var ungur drengur á árum mexíkönsku byltingarinnar. þegar hann reið um búgarðinn sem frændi hans sá um og hjálpaði indíánunum sem unnu við uppskeruna. hann segir okkur frá foreldrum sínum sem fengu ekki að giftast vegna þess að hún var af sígaunaættum og ekki talin samboðin barnsföður sínum sem var af fínum spænskum ættum. hann lýsir fyrir okkur frændanum á búgarðinum sem var stór og brúnn með mikið yfirvaraskegg, stóra sylgju á beltinu sínu, stóran hatt, stór stígvél og byssu í slíðri.
mér þykir gaman að fá að ferðast aftur í tímann með honum afa. magnað að hugsa til þess að á sama tíma voru ömmur mínar og afar á íslandi að alast upp við gersamlega ólíkar aðstæður.
hérna var þetta meira svona eins og kryddlegin hjörtu. fyrir þremur kynslóðum bróderuðu konur samfaralökin sín fyrir brúðkaupið, karlar komust upp með að taka sér konur í bókstaflegri merkingu og konur eyddu mánuðum og jafvel árum svartklæddar og meira og minna innilokaðar í sorg þegar einhver mikilvægur fjölskyldumeðlimur lést.
mmm.... gott ef ég sé ekki eitthvað sameiginlegt við gamla frostið á fróni.

Engin ummæli: