þá er litla familían semsagt komin aðeins hærra en hvannadalshnjúkur. krakkarnir eru hin ánægðustu og við líka. litlar tæplega 4 ára frænkur hafa verið óaðskiljanlegar síðan við lentum í gærkveld, önnur talar spænsku og hin svarar á íslensku en einhvernvegin skilja þær hver aðra fullkomlega. (reyndar virðist vera að byrja að hrikta í stoðunum einmitt núna...)
annars langar mig mest til að segja ykkur frá honum claudio.
hann heitir claudio torres velazquez og fæddist í mars 1982 í 300 húsa þorpinu tlapitzalapan. hann er með svart burstaklippt hár, brúna húð, frekar grannur og lágvaxinn og fyrir ofan munninn er hann með hár og hár á stangli sem eru að reyna að líkjast yfirvaraskeggi. indíánum vex lítið líkamshár, en á móti verða þeir ekki sköllóttir.
hann sat fyrir framan okkur í flugvélinni frá new york til mexíkó. á einhverjum tímapunkti flugferðarinnar kom hann til okkar og bað okkur um að hjálpa sér við að fylla út eyðublöð fyrir tollinn vegna þess að hann kann hvorki að lesa né skrifa, enda hefur hann alltaf þurft að vinna og hefur ekki verið í skóla. það er hvort eð er ansi lítið af menntun að fá í þorpinu þó svo að frambjóðendur lofi bæjarbúum alltaf gulli og grænum skógum rétt fyrir kosningar.
hann sagðist hafa verið rúm 2 ár í bandaríkjunum, en þangað fór hann til að vinna fyrir sér og freista gæfunnar. hann hafði aldrei flogið áður, en hann hafði borgað einhverjum gaur 1800 dollara fyrir að hjálpa sér yfir landamærin. hann gekk í 22 klukkustundir frá mexíkó til texas. endaði svo sem aðstoðarmaður á veitingastað í new york.
hann var stressaður yfir því að komast í gegnum vegabréfaskoðun vegna þess að hann á ekkert vegabréf. hann var með snjáð fæðingarvottorð og fölsuð persónuskilríki. hann var á leiðinni heim af því að pabbi hans lést og nú verður hann að taka við af honum og vinna fyrir móður sinni heima í tlapitzalapan. hann sér ekki fram á að fara aftur úr landi.
það eina sem er hægt að gera í þorpinu hans er að rækta kaffi, appelsínur, mangó eða aðra ávexti og grænmeti. það skiptir víst ekki miklu máli hvaða tegundir hann ræktar, þær eru allar illa borgaðar. mikil vinna fyrir sama og engan pening. ástæðan fyrir því að hann fór í burtu til að byrja með.
nema hvað, við fórum samferða claudio í gegnum flugvöllinn, leiðbeindum honum og biðum eftir því að hann kæmist í gegnum vegabréfaskoðunina. hann komst í gegn.
eftir að við lentum átti hann eftir að koma sér á rútubílastöð og sitja svo í rútu í 7 klukkutíma.
á leiðinni út af flugvellinum rétti makinn minn honum nafnspjald með tölvupóstfanginu sínu. á íslensku benti ég honum á að maðurinn kynni ekki að lesa, en claudio brosti bara og sagðist hvort eð er ekki vita hvað tölvupóstur væri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli