miðvikudagur, maí 02, 2007

ég á svilkonu sem er lítil. hún er töluvert pjattaðri en ég. hún kaupir sér allskonar fegurðargræjur vegna þess að hún er mjög upptekin af því að vera fögur. hún var á íslandi um jólin síðustu og á meðan hún var hér fórum við meðal annars í hagkaup í skeifunni. sem er svosem ekki í frásögur færandi.
í hagkaupum keypti hún sér pakka sem innihélt vaxtúpuhitara, vaxtúpur, rúlluhausa á vaxtúpurnar og einhverskonar pappírsstrimla í poka. þetta hafði hún hugsað sér að nota til að kippa af sér yfirvaraskegginu og öðrum óæskilegum hárum. ferð hennar var of stutt fyrir hana til að ná að koma græjunni í gagnið og sökum óhentugrar rafmagnssnúru (ameríska vs. evrópska kerfið), skildi hún pakkann ásamt innihaldinu eftir á baðherberginu mínu.
þennan pakka hef ég horft margsinnis á og innra með mér hafa bærst blendnar tilfinningar. ég hef einhvernvegin aldrei treyst þessu fyrirbæri sem felur í sér að maka á sig heitu vaxi, klína pappír ofaní það og rykkja svo af. en bikiníklædda konan utaná pakkanum virkaði voða hamingjusöm og broddalaus... svo að ég lét hana plata mig.
í gærkveld þóttist ég vera orðin nógu loðin til að þetta myndi blíva svo ég stakk græjunni í samband og undirbjó umhverfið fyrir kósí pæjustund sem ég ætlaði að nota til þess að fegra mig og vera svolítil dama, svona ,,elskaðu sjálfa þig" móment eins og stendur í öllum kvennablöðum að maður verði að fá sér. kertaljós, ilmolíur og læti. gott ef ég fékk mér ekki súkkulaði líka.
nema hvað, í leiðbeiningunum stóð að ef loftbólur hefðu myndast væri vaxið orðið nógu heitt og jújú, loftbólur og læti. svo ég settist á nærbuxunum á púða miðaði stautnum með rúllunni 45° (eins og stóð í leiðbeiningunum) og rúllaði í átt að hárvexti frá hné niður að ökkla. svo klíndi ég meðfylgjandi blaðsnepli ofaní vaxið, andaði djúpt og kippti.
það var ekki eins vont og ég hafði átt von á. blaðið fylltist af hárum og ég hljóp fram voða stolt að sýna makanum.
svo settist ég aftur niður, enda ekkert vit í því að stoppa með eitt berrassað strik á fótleggnum innanum allt loðið. svo ég byrjaði uppá nýtt, 45° allt eftir uppskriftinni. og líma og kippa.
gekk vel framanaf.
svo fór eitthvað að gerast. vaxstauturinn varð alltaf klístraðri og klístraðri í hvert sinn sem ég tók hann aftur uppúr hitaranum. blaðsneplarnir urðu alltaf klístraðri og klístraðri og eins hendurnar á mér. færri og færri hár festust í blöðunum og blöðin festust alltaf meira og meira við puttana á mér. á endanum sat ég með tárin í augunum, lekandi vaxrúllu, loðin blöð föst við alla puttana á mér sem voru líka fastir hver við annan og blettaskalla á fótleggjunum.
svo fylltist ég réttlátri reiði, klíndi blöðunum í ruslið, reyndi að losna við klísturhelvítið af fingrunum (eftir að hafa klístrað út allan vaskinn, sápustaukinn, handklæðið og sjálfa mig), henti vaxgræjunum eins og þær leggja sig og klifraði upp í rúm.
í morgun vaknaði ég með fáránlegustu hluti límda við kálfana á mér.
ég er ennþá með límklessur víðsvegar um kálfana, en ég finn ekkert fyrir þeim því lóin úr buxunum mínum hefur fjarlægt klísturleikann. nú bíð ég bara eftir því að þetta detti af sjálfkrafa. ég gefst upp.
vax er ekki málið.

Engin ummæli: