fimmtudagur, maí 31, 2007

í gær átti ég að vera komin með heimasíma. gaurarnir sem tengdu hann tengdu eitthvað í kross þannig að þeir sem ætluðu að hringja heim til tómasar og annettu konunar hans hringdu heim til mín og öfugt. í dag eiga að þeir að koma aftur til að laga mistökin. ef þeir hefðu ekki tengt mig í kross við mann sem vinnur hjá símanum hefði ég þurft að bíða í mánuð eftir því að þeir kæmu. áðan fór ég yfir til að spyrja annettu hver staðan væri og hún byrjaði að tala. og tala. og tala. og ég var að kúka í buxurnar en hélt ró minni með bros á vör. ég hafði aldrei heyrt konuna tala, enda hef ég alltaf hitt hana þegar hún situr þögul undir söng eiginmannsins. en mikið andskoti getur konan talað. úff.
nú svo fór ég heim að kúka.... hehe.... eftir það fóru börnin mín í heimsókn í nýja skólann sinn sem heitir ,,la granjita" sem lauslega þýtt er litli bóndabærinn. þetta er pínulítill skóli, átta krakkar í hóp, og sá eini sem ég fann þar sem þau þurfa ekki að vera í skólabúningi og strákarnir þurfa ekki að vera með knallstutt hár. þar munu þau læra ensku, þýsku, dans, myndmennt, á tölvur og fleira. í hverri viku fara þau svo á hestbak þar sem þau læra að umgangast hestana sem skólinn á. þar eru líka hundar, kettir, kanínur, páfagaukar, skjaldbökur og óeitruð slanga. það sem mér leist best á við skólann atarna er að hugmyndafræðin er svipuð og heima á fróni. mikið er lagt uppúr því að krakkarnir leiki sér, fikti og séu skapandi, lítið er lagt uppúr heimavinnu og heraga. það er lesið fyrir þau, þau syngja og fá að dunda sér á bókasafninu innanum skjaldbökuna og slönguna. afkvæmin mín voru hin kátustu og munu byrja formlega í skólanum í ágúst.

áðan eldaði ég tacos. það að ég hafi eldað er nýlunda í sjálfu sér, en það tókst bara vel þó ég segi sjálf frá. á morgun kemur til okkar indíánakona sem ætlar að elda mat fyrir alla vikuna. fyrir það borga ég henni um 1500 kall. á þriðjudögum mun önnur indíánakona koma að þrífa alla tæpu þrjúhundruð fermetrana okkar. fyrir það mun ég borga henni annan 1500 kall.
fyrst ætlaði ég að vera voða hörð á því að fá engan. mér þykir hálf skrýtið að láta þrífa ofaní mig. en svo fór ég að reyna að halda öllu í horfinu og svei mér þá ef það er ekki óðrar konu æði. sérstaklega þar sem ég þarf líka að vera að læra, hafa ofanaf fyrir börnunum mínum og hinum sem eru hlaupandi hér út og inn og hlusta á nágrannakonurnar slúðra. nóg að gera.

hér í metepec er frekar kalt. við erum í um 3000 metra hæð yfir sjávarmáli og mér skilst að þetta sé eitt af kaldari svæðum landsins. á daginn verður ágætlega heitt, ekkert óþægilegt, en á kvöldin kólnar. ég man ekki af hverju ég var að segja frá því... arg.... jæja, ég segi þá bara það sem ég ætlaði að segja seinna þegar ég man það.

Engin ummæli: