þriðjudagur, maí 01, 2007

þegar ég var lítil var farið með mig í kröfugöngur á fyrsta maí. ég söng ísland úr nato og herinn á brott með rauðan fána í hönd. heima í stofunni var mynd af karli marx í ramma, sem ég hélt lengi vel að væri mynd af sveinka bróður afa. sveinn þessi vissi ég að var eitthvað merkilegur kall sem bjó í austur-berlín þannig að mörkin á milli hans og karls marx voru óskýr í mínum barnshuga.
mamma mín átti plötu sem hét áfram stelpur og ég kunni að syngja ,,já ég þori get og vil" og mig minnir að við höfum átt plötu með bergþóru árnadóttur, kristínu æi þarna með hvíta lokkinn, sænskum þjóðlagasöngvurum, leonard cohen, cat stevens, bob dylan og bítlunum.
mikið um gítartónlist með boðskap. og boney-m.
foreldrar mínir hlusta enn á sænska þjóðlagasöngvara og eiga geisladiska með bítlunum, leonardo cohen og fleirum. uppi á vegg hangir hvorki mynd af sveinka né karli marx og þau vilja frekar eyða verkalýðsdeginum í að spila golf en fara í kröfugöngur. ,,ég er hættur að nenna að krefjast" sagði faðir minn blessaður í dag. þau mega eiga að nóg hafa þau krafist um æfina. kröfur voru hugsjónamál og það var hiti í fólki.
mín kynslóð hefur haft það gott frá upphafi. okkur þykja ýmsir hlutir sjálfsagðir sem ekki væru eins og þeir eru í dag ef ekki hefði verið fyrir kröfur og baráttu hugsjónafólksins. eins og bara það að geta farið með börnin mín á leikskóla á meðan ég fer í vinnuna. og það að eiga rétt á námi á hvaða stigi sem er.
mín kynslóð á íslandi er léleg kröfugöngukynslóð. við fáum aulahroll í kröfugöngum, við sjáum ekki alltaf tilganginn með því að krefjast. við nennum því ekki.
mér finnst foreldrar mínir alveg eiga skilið að spila golf í dag. þau eru búin að krefjast nóg fyrir mína hönd og sína eigin.

Engin ummæli: