fimmtudagur, maí 24, 2007

jæja. nú ligg ég í stóru rúmi á ramada plaza hotel á jfk flugvelli. ekkert merkilegt hótel svosem, alveg eftir flugvallahótelauppskriftinni bara. ég er að horfa með öðru auga á beina útsendingu frá einhverjum voða idol-tónleikum, sýnist þetta vera lokaþátturinn... hef svosem ekkert fylgst með þessum skratta, en það er ekkert annað í sjónvarpinu hérna, ótrúlegt en satt.
nema hvað... í morgun fór ég að eta súpu ásamt beggu vinkonu og svo fórum við fjölskyldan útá flugvöll. ég fæ alltaf kúkasting úr stressi þegar ég kem að keflavíkurflugvelli. meira að segja þó að ég sé að sækja einhvern. meira samt þegar ég er að fara.
svo fórum við mæðgur, ég enn eina ferðina með tárin í augunum. hrikaleg lenska.
flugferðin gekk vel. síðburðurinn hagaði sér stórkostlega vel, ég horfði á rómantíska gamanmynd með drew barrymore og hugh grant... bara af þeim upplýsingum getur ágætlega þenkjandi fólk gert sér grein fyrir kalíberinu af kvikmynd.
ég fékk kjúkling í einhverju raspi með osta og skinkufyllingu, salat og lítin kökukubb. einhvernvegin finnst mér eins og ég hafi borðað þetta áður í flugvél. nema bara að núna var umgjörðin hálf fátækleg eitthvað. mætti halda að flug-okur group væri að spara.
nú jæja... við lentum í njúv jork og lentum í ótrúlega stuttri bið eftir vegabréfaskoðun, svo hirtum við öll okkar hundrað kíló af farangri og fórum út að leita að gulum leigubíl. þegar röðin kom að okkur í leigubílaröðinni reyndist okkar maður vera að því er mér virtist arabísk-ættaður maður á sjötugsaldri. hann vippaði farangurshaugnum í skottið og við settum okkur afturí þar sem ég lét hann hafa heimilisfangið hér á ramadan. svo keyrði hann af stað. og hann keyrði. og hann keyrði. og hann keyrði í hring eftir hring eftir hring. á endanum var það ég sem sagði honum hvar hann ætti að beygja með því að lesa vegaskiltin. svo skildi maðurinn okkur eftir við innkeyrsluna að hótelinu (ekki í anddyrinu heldur slatta frá því), muldrandi æ, æ, æ... og vildi svo fá tuttugu og fimm dollara fyrir skutlið sem undir eðlilegum kringumstæðum myndi kosta tíu. ég borgaði honum fimmtán og hann fór í burtu í fýlu. töskugaurinn sem kom út að hjálpa okkur með draslið blótaði bílstjóranum í sand og ösku þegar hann sá hvar farangurinn var og heyrði hvað hann hefði keyrt með okkur í langan tíma og hvað hann vildi rukka fyrir.
á morgun fer ég í hótelskutlunni. það var ekki rétt hjá makanum að það væri þægilegra fyrir mig með allan þennan farangur að fara í leigubíl frekar en skutlunni. þeir rata allaveganna.
nú, við mæðgur keyptum okkur smá snarl og hoppuðum svo aðeins í rúminu áður en sú litla datt útaf og nú er ég semsagt hér....að skrifa.

jordan sparks vann american idol í ár. þetta tilkynnti ryan seacrest einmitt á þessu augnabliki og paula abdul er að gráta.
ef þú varst að fylgjast spennt/ur með þáttunum og vildir ekki vita það þá.... heh... sagði ég ekki neitt.

Engin ummæli: