miðvikudagur, nóvember 30, 2005

ég þarf að verða mér útum svona tannkrem eins og er selt í ameríku.
ég veit ekki hvað það er en það virðist amk vera svo gasalega magnað að fólk vaknar ilmandi og til í kossaflens um leið og það opnar augun á morgnana.
eða kannski er fólk í hollívúdd bara almennt ekki viðkvæmt fyrir morgunandfýlu.
en miðað við það sem ég hef séð í sjónvarpinu þá er þetta allavega eitthvað aðeins öðruvísi heldur en á mínu heimili þar sem allir vakna með prumpufýlu í munninum.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

ég þekki manneskju sem ég veit ekki hvort er karlkyns eða kvenkyns.
mun sennilega aldrei komast að hinu sanna.
djöfull er það óþægilegt.

ég þekki manneskju sem veit ekki hvað hún vill.
mun sennilega aldrei komast að hinu sanna.
djöfull er það óþægilegt.

föstudagur, nóvember 25, 2005

jedúdda... ég hef orðið fyrir einhverju fyrirbæri sem kallast kitl af völdum ljúfu. en áður en ég vind mér í listagerð langar mig að þakka ykkur kærlega fyrir góð viðbrögð við betli mínu og þakka þér farfugl fyrir dótakassann og þér hildigunnur fyrir að skutla dótinu til mín. gaman að fá andlit á bak við kommentakunningjana. (gaman annars að segja frá því að þegar hún hringdi á dyrabjöllunni sat ég einmitt í hægðum mínum á klósettinu og var næstum því búin að missa af henni, enda með allt á hælunum...tíhí). já og við erum semsagt enn að bíða eftir kolaportsbásnum en hún verður pottþétt þar 11., 17. og 18. des. og svo verður hún með skartgripina sína í jólaþorpinu í hafnarfirði á þorláksmessu. svona er maður nú mikill reddari.

nema hvað. hér koma kitlviðbrögðin.

7 hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:
1. skrifa bók (hvort ég ætli að gefa hana út er önnur ella)
2. ferðast um stóran hluta heimsins
3. eiga pening
4. læra arabísku og/eða japönsku
5. læra að búa til eitthvað að borða
6. hjálpa einhverjum
7. panta mér grafreit á íslandi

7 hlutir sem ég get:
1. talað spænsku og skilið ýmislegt á frönsku sjónvarpsstöðvunum
2. fengið fólk til að brosa og jafnvel hlægja
3. hlustað á aðra, fundið málamiðlanir og stundum ný sjónarhorn eða lausnir
4. sungið ógrynnin öll af íslenskum leikskólalögum og vísnabókarsöngvum
5. munað ógeðslega mörg símanúmer og allskyns fáránlegar tölurunur (og munað hvar allt er heima hjá mér)
6. haldið uppi samræðum við ókunnuga
7. bakkað óaðfinnanlega í hin þrengstu bílastæði

7 hlutir sem ég get ekki:
1. farið í handahlaup, splitt eða spígat
2. munað uppskriftina að kaffi
3. skammað eða rifist
4. hætt að líta á þrastarhóla 10 sem húsið mitt
5. hætt að borða nammi
6. horft á íslenska raunveruleikaþætti
7. verið eðlileg í kirkju eða á öðrum mjög formlegum samkundum

7 hlutir sem heilla mig við hitt kynið
1. kímnigáfa og léttleiki
2. fallegar hendur og neglur (hvað er það hjá mörgu kvenfólki?)
3. hárlaus brjóstkassi
4. hreinlæti
5. heiðarleiki
6. framkvæmdagleði
7. orðheppni

7 frægir karlmenn sem heilla mig
1. depp eins og svo margar aðrar
2. elvis presley áður en hann fór í herinn
3. hilmir snær
4. yahir (frægur söngvari í mexíkó sko)
5. garðar þór cortez
6. ricky martin þegar hann dansar
7. simon le bon löngu áður en hann kom til íslands

7 orð eða setningar sem ég segi oftast:
1. ertu búinn að læra heima og æfa þig á trompet?
2. burstaðu tennurnar og farðu að hátta
3. vertu kyrr / hættu þessu
4. núnú
5. drífðu þig á fætur / þú ert að verða of seinn
6. góðan dag / halló
7. hvusslags

7 manneskjur sem ég ætla að kitla
1. min söster
2. veiga
3. þórður
4. tinna æ
5. pass
6. pass
7. pass

mánudagur, nóvember 21, 2005

komið heil og sæl kæru vinir.
þannig er mál með vöxtum fyrir þau sem ekki vita, að ég hef gerst stuðningsfjölskylda fyrir unga fjögurra barna makalausa móður frá kólumbíu sem kom hingað til lands fyrir rúmum mánuði síðan.
hún er á fullu að læra íslensku og rembist við að aðlagast nýjum aðstæðum og undarlegu tungumáli.
framfærslupening fær hún í hverjum mánuði frá borginni, en eftir að leigan hefur verið greidd og strætómiðar keyptir og allt sem fylgir einföldustu gerð lífernis er ekki mikill peningur eftir fyrir konu sem býr með 8, 11, 12 og 15 ára ungmennum.
hún hefur verið að búa til mjög fallega skartgripi heima hjá sér úr ýmiskonar perlum, lituðum fræjum, kaffibaunum, skeljum og fleiru náttúrulegu og sniðugu og hana langar mikið til að koma sér af stað við að selja framleiðsluna og læra betur á íslenska samfélagið. til þess að prófa hefur hún ákveðið að leigja sér bás í kolaportinu um næstu helgi, en skartgripirnir hennar eru ekki nægilega margir til þess að halda uppi heilum bás.
þar kem ég inní myndina og vonandi þið líka. mér datt nefnilega í hug að smala saman smotteríi úr geymslum þeirra sem nóg eiga þannig að hún geti dundað sér við að selja notaða hluti og fengið þannig smá aukapening fyrir jólin. margt smátt gerir nefnilega eitt stórt.
ef eitthvert ykkar nennir, vill og getur litið í kringum sig eftir seljanlegu skrani sem þið notið ekki lengur og munið aldrei nenna að koma í verð sjálf, mun vinkona mín og ég fyrir hennar hönd, verða hin hamingjusamasta. ég gæti tekið að mér að skreppa eftir dóti til ykkar (ágætis ástæða líka til að koma í heimsókn...ehe), eða ef þið eigið leið hjá njálsgötu, nú þá bý ég þar með opinn faðminn og pláss í geymslunni.

þetta var semsagt jólabón ársins frá mér til ykkar.
gerði þau hálfvitalegu og fábjánalega algengu mistök að drekka koffín fyrir svefninn. gat svo ekki sofnað en lá delírandi í rúminu í marga klukkutíma. vaknaði svo um einum til tveimur tímum síðar við að síðburðurinn hafði klifrað uppí og migið undir okkur báðar. kippti henni úr neðri hlutanum og fór í nýjan bol og ætlaði að nota hinn helming rúmsins til að klára nóttina en komst þá að því að frumburðurinn hafði lagt hann undir sig sökum martraðar.
brölti ég þá í hans ból sem er lítið og ekki eins gott og mitt.
brölti þá síðburðurinn þangað á eftir mér því stóra dýra ameríska rúmið mitt er ekki nógu gott fyrir hana ef ég er ekki í því. svaf því skökk og illa í smá stund í viðbót.

skemmst er frá því að segja að ég er þreytt, úrill og svakalega tæp á geði í dag.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

búin að laga athugasemdakerfið, amk síðast þegar ég vissi.

ég hlustaði á sjón lesa uppúr einni af eldri bókum sínum í gær. svo sagði hann frá starfi sínu og við spurðum útí hvernig þetta virkar alltsamant og hvað liggur að baki hverri bók.
gott ef hann skrúfaði ekki endanlega fyrir allar mínar hugmyndir um að verða rithöfundur þegar ég verð stór. ég hef hvorki einbeitingu né tíma til þess að ráfa um bókasöfn og fornbókabúðir til þess að sanka að mér efni til að lesa svo að það geti gerjast í hausnum á mér í nokkur ár þangað til ég hrasa um sögupersónur sem verða að komast á blað, öll púslin falla á rétta staði og bókin skrifar sig sjálf í höndunum á mér.
ég kann heldur ekkert að gera trúverðuga persónusköpun og vel hnýttar sögufléttur og hvað þetta heitir nú alltsaman þetta bókmenntamömbódjömbó.
kannski væri betra fyrir mig að skrifa eins og eina sjálfshjálparbók um eitthvað sem böggar alla, hrista fram töfralausn og verða þýdd á ensku og seljast í milljónum eintaka og koma fram í ópru og doktor fill.
áður en ég kem mér að verki þarf ég bara að lesa eins og eina sjálfshjálparbók um það hvernig ég get haft meiri tíma og einbeitt mér betur.

í millitíðinni held ég mig bara við hryssuna mína. hún er gæf og hlýðin þessi elska.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

ég á afmælí dag,
ég á afmælí dag,
ég á afmælún éheg
ég á afmælí dag.
húrra!

kveðjur og hamingjuóskir vinsamlegast þakkaðar.

ég fékk kórónu og þrjár gerðir af kökum í fyrstu frímínútum. yndisfagurt er að vinna með fólki sem eru álíka mikil afmælisbörn og ég sjálf. unaðurinn einsamall.
það var sko ein ostakaka, ein súkkulaðikaka og ein svona með hvítum botni, brúnum rjóma, perum og einhverju súkkulaðiskrauti ofaná. mikil var sú fegurð og fagurt var bragðið. nú og svo verður hátíðarkvöldverður í faðmi fjölskyldunnar heima hjá móður í kveld. þar mun gúmmulaðið aldeilis flæða yfir bakka sína.

um daginn fann ég nokkur 20 ára gömul bravoblöð. ég gaf þýskukennaranum þau eftir að hafa hirt duran duran plaggat sem einhverra hluta vegna hefur farið framhjá mér á sínum tíma. nú hangir plaggatið hér fínt og fagurt fyrir ofan skrifborðið mitt þar sem ég get blikkað þá og þeir eru ekki orðnir hrukkóttir eða gamlir.

stundum er bara eitthvað svo yndislegt að vera til....

föstudagur, nóvember 11, 2005

fólk er stundum fífl. margir. fólk er samt nauðsynlegt og þegar upp er staðið er fólk það eina sem skiptir máli. það gerir öllum gott að skipta máli fyrir fólk, þó ekki séu það endilega margir. fólk sem skiptir ekki máli fyrir neitt fólk hverfur. sumt fólk er óþarft fyrir annað fólk, flestir eru þó nauðsynlegir fyrir einhverja og yfirleitt þarf ekki marga til. einstaka fólk kemur sér í þá stöðu að vera þarfir fyrir marga og jafnvel flesta, en það er fólk sem hættir að vera fólk að mörgu leyti og verður tákn. svo notum við fólk til að miða okkur við, líta upp til eða kvabba yfir sem getur verið bæði gaman og gefandi.

mig langar ekkert endilega að vera tákn en ég hef mikla þörf fyrir sumt fólk og hef þörf fyrir að það fólk hafi þörf fyrir mig.

í mínum huga er tilgangur lífsins þessi: fólk.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

ég á fáránlega nágranna. einhversstaðar rétt hjá mér býr td. gaur sem á af og til leið framhjá baðherbergisglugganum mínum. hann er í götuhæð og auðvelt fyrir hvern sem er að beygja sig niður og kíkja á tildæmis mig á klósettinu. nema hvað, ég er oft með opinn gluggann af ýmsum ástæðum þegar ég er við iðju mína þar en nú fer það að verða erfitt vegna þess að nágrannahelvítið á það til að hlaupa framhjá og á hlaupunum vippar hann inn litlum ógeðslegum kúkafýlusprengjum sem valda vondri lykt í talsvert langan tíma inni á baði.
ég hef reyndar ósköp lítið orðið vör við þetta vandamál sjálf, en hún systir mín er ótrúlega óheppin. í hvert skipti sem hún kemur í heimsókn til mín og fær að nota klósettið kemur þetta svín og skutlar sprengju inn. aumingja hún kemur síðan út af baðherberginu illa lyktandi hrikalega vandræðaleg yfir lykt sem hún hefur ekkert með að gera.
ætli ég endi ekki á að setja upp öryggismyndavélar fyrir utan baðherbergisgluggann og siga löggunni á þetta pakk.

mánudagur, nóvember 07, 2005

eftir tiltektina miklu uppi á lofti hjá mor og far datt ég ofaní fulla tösku endurminninga frá unglingsárunum og öðrum ungdómi. það var eitthvað svo mikið við hæfi svona þegar dregur nær fyrsta þrjátíuogeitthvað afmælisdeginum mínum.
mikið var ég annars mikið yngri þarna þegar ég var yngri en þóttist vera eldri... en það voru svosem allir hinir á myndunum líka.

ég sat áðan í sófanum mínum bláa eftir að börnin skriðu í rúmið og þögnin færðist yfir, nartaði í súkkulaði og rölti niður minningaakreinina í fylgd með gömlum myndaalbúmum og ýmiskonar krotbókum. á rölti mínu rakst ég á mig sem félagsmálaforsprakka, leikkonu, dansara, blómabarn, fitubollu, mjónu, hárlitunarmódel, skákmeistara, ljóðskáld, fótboltakennara, leiklistarkennara, partýljón, barnunga móður, daðrara, barþjón, prom queen (lööng saga), hafnarboltaaðdáanda, billjardspilara, málara, sundkappa, píanóleikara, rithöfund, háskólanema, söngleikjahöfund, útlending og fleira og fleira.

í dag myndi ég segja að ég væri mamma, maki og réttindalaus kennslu-eitthvað.

hvað varð um úbermaju?

föstudagur, nóvember 04, 2005

ég var beðin um að ganga í sjálfstæðisflokkinn framyfir helgi, bara til að taka þátt í prófkjörinu. svo var mér sagt að ég mætti hætta í flokknum strax á mánudaginn.
mér var meira að segja sagt að það skipti í raun engu máli hvort ég væri skráð í tvo flokka í einu. allavega framyfir helgi.
hugmyndin var sú að þar sem sjálfstæðisflokkkurinn myndi hvort eð er að öllum líkindum vinna, þá gæti ég að minnsta kosti valið skárri kostinn af tveimur illum.
skárri kosturinn er þá semsagt gísli marteinn og verri kosturinn vilhjálmur.

eru hægrimenn virkilega að taka völdin?
er í raun og veru svona stór hluti borgarbúa með einstaklingshyggjukúk á milli eyrnanna? er málið að einkavæða allt draslið og stefna svo öll í að verða jakkafata og dragtarklætt úberfólk á uppleið?
er málið að vera jafnréttissinnuð ofurkona sem notar orðið femínisti yfir krúttílegar sínöldrandi risaeðlumussur eins og rúnu í stígamótum og hlægja svo að því hvernig strákarnir láta yfir fótboltanum þar sem við sitjum í háhæluðu manolo blatsnjikk skónum okkar með jóa fel snittu á milli naglalakkaðra fingra?

vill einhver annað hvort skjóta mig eða forða mér frá fordómum mínum gagnvart hægrisinnuðum.... eða kannski frekar hjálpa mér að kjósa einhvern annan flokk?

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

úrverk með túrverk.
ég vil fá steiktan snák og sniglagraut og geðveiku gæsina sem afi skaut, refahakk í rófustöppu og rifinn ost, þetta kallar maður þrumu veislukost.

bróðir minn kveðst vera raunsær frekar en neikvæður. þetta er velta sem ég hef verið að velta fyrir mér ásamt minni bestu vinkvinnu og líka honum brósa undanfarið.
það er svo skrýtið að vera staddur á þeim stað tilverunnar að nenna óskaplega fáu fólki. sérstaklega þegar horft er uppá aðra íbúa bæjarins hamast við að rotta sig saman í allskonar hópum, dekurvinkonuhópum, pjattuppskriftamatarhópum, megrunaráhugahópum og sexinthecitywannabehópum. (oftar en ekki einn og sami hópurinn). og svo situr einhver ég úti í horni og hreinlega nenni engan veginn að setja mig inní áhugamálin eða samræðurnar eða vináttuna.
það þarf tildæmis mikla vináttu til þess að ég asnist til að muna afmælisdaga vinaafkvæma og ég er engan, og ég endurtek engan veginn í því að fylgjast með krúsímúsísögum á heimasíðum smábarna á barnalandi. hreinlega nenni ekki.
ég veit ekki hvort ég er bara neikvæði gaurinn í kjallaranum eða hvort ég sjái einfaldlega ekki tilganginn í að eyða tíma mínum í að standa í pjáturhjali og vangaveltum um sniðugustu aðferðina til að eiga óaðfinnanlegt heimilislíf og fullkomna tilveru. komin með upp í háls af sjálfshjálparbókaheiminum þar sem vala matt og sirrý vita betur.
ég er líka annað hvort of raunsæ eða of neikvæð eða of heimsk til þess að nenna kirkjum, heilurum og orkuflæðissteinum.
ég fæ kjánahroll yfir halloween, valentínusardeginum og raunveruleikasjónvarpi og mér er ekkert í mun að bæta ,,deit" menningu íslendinga. að auki þykir mér frægt fólk á íslandi ekki merkilegt og þeim fer ört fækkandi sem mér þykja merkilegir erlendis.
hvað er svo að fólki sem setur upp jólaskraut í október?

en eins og ég segi er ég ekki alveg viss hvort ég er of raunsæ/jarðbundin (skilgreiningaratriði), eða ógeðslega neikvæður og fúll karakter yfir höfuð.

(áður en þið veljið fúll karakter langar mig að bæta því við að ég get slett fram kaldhæðnislegum athugasemdum um flest ef ekki allt ofantalið um leið og það berst í tal)

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

hæbb. öll að hressast. þakka skilning og stuðning á þreytutímum.
annars má ég til með að segja frá því að ég fór í sund í morgun eins og flesta aðra morgna undanfarið, sem er svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að ég fór ekki beina leið heim eins og ég hef yfirleitt gert.
eftir sundið í dag keyrði ég að þvottabásastöðinni þarna fyrir ofan ikea og keypti mér nokkra peninga í þvottabás nr.1.
eins og oftar er ég hef átt leið um bifreiða-eitthvað í heiminum, var ég eini kvenmaðurinn á svæðinu.
nema hvað, maðurinn í afgreiðslunni horfði skilningsríkum augum á mig á meðan hann útskýrði virkni tækjanna á máli sem hefði betur átt heima í stundinni okkar, enda greinilega vanur því að sumar tegundir af fólki ættu erfiðara með að fatta græjur en aðrar.
ég leyfi mér þó að efast um að búnaðurinn geti vafist fyrir mörgum þar sem að á tækinu sem peningunum er stungið inní er rofi. í kringum rofann eru tölustafir og við hvern tölustaf stendur eitt stikkorð sem vísar til leiðbeininganna á veggjunum. á veggjunum eru flennistór skilti þar sem viðeigandi tölustafir eru ásamt upplýsingum um verkfærið. röðin er eftirfarandi:
1- tjöruleysir, 2- háþrýstiskolun, 3- kústur með sápulöðri og 4- háþrýstiskolun (með bóni ef vill). fyrir 600 krónur fást 10,5 mínútur til þess að ljúka áðurnefndu ferli af. aukamínútur má svo kaupa fyrir 200 krónur (ekkert svo vitlaus bransi það).
nema hvað, stillir svo hver og einn á fyrsta stað á rofanum og spúir tjöruleysinum yfir bílinn, svo er stillt á tvo og þá fer sprautan í gang, varast ber þó að eyða of miklum tíma í hana því hún stoppar ekki sjálfkrafa og auðvelt er að falla í tímaeyðslu á þessu stigi málsins. þriðja stig er ekki heldur tímastillt svo að þeir sem hafa gaman af löðri skyldu vara sig á þeirri gryfjunni. nú og svo lýkur meðferðinni með lokaskolun með bónspúli sem stöðvast um leið og 10,5 mínúturnar eru liðnar, hvort sem bíllinn er hálfur útataður í löðri eða ekki.
nema hvað, ég hefði nú varla nennt að eyða tíma eða orku í að segja svo nákvæmlega frá þessu öllu saman ef ekki væri fyrir þá litlu og glottvænu staðreynd að ég horfði uppá karlana alla fara aðra ferð inn að kaupa sér aukamínútur á meðan mín kona tjöruhreinsaði, spúlaði, löðraði og bónskolaði og átti meira að segja auka mínútu til þess að splæsa á aðra umferð af lokaskolun. geri aðrir betur.
nú og svo setti ég hundraðkall í 9 mínútna ryksuguna og þótti tíminn ansi drjúgur, enda komin í mikið stuð og góðan gír.
eftir aðgerðirnar gekk ég í kringum bílinn og virti afrekið fyrir mér áður en ég leit stolt og sveitt yfir öxlina og brosti meðaumkvunarbrosinu mínu í áttina að pirruðum körlum með vatnslausar sprautur og bíla sem litu út eins og dóttir mín í freyðibaði.
á leiðinni heim setti ég upp montrassalegan svip á hverju einasta rauða ljósi, enda viss um að nýfenginn gljái á bifreiðinni minni færi ekki framhjá neinum.

sem minnir mig á það... 13 dagar í afmæli og hér með vil ég vinsamlegast biðja alla um að fara varlega í kringum afmælisdaginn minn svo að ég geti eytt honum í eintóma gleði.