fimmtudagur, nóvember 03, 2005

úrverk með túrverk.
ég vil fá steiktan snák og sniglagraut og geðveiku gæsina sem afi skaut, refahakk í rófustöppu og rifinn ost, þetta kallar maður þrumu veislukost.

bróðir minn kveðst vera raunsær frekar en neikvæður. þetta er velta sem ég hef verið að velta fyrir mér ásamt minni bestu vinkvinnu og líka honum brósa undanfarið.
það er svo skrýtið að vera staddur á þeim stað tilverunnar að nenna óskaplega fáu fólki. sérstaklega þegar horft er uppá aðra íbúa bæjarins hamast við að rotta sig saman í allskonar hópum, dekurvinkonuhópum, pjattuppskriftamatarhópum, megrunaráhugahópum og sexinthecitywannabehópum. (oftar en ekki einn og sami hópurinn). og svo situr einhver ég úti í horni og hreinlega nenni engan veginn að setja mig inní áhugamálin eða samræðurnar eða vináttuna.
það þarf tildæmis mikla vináttu til þess að ég asnist til að muna afmælisdaga vinaafkvæma og ég er engan, og ég endurtek engan veginn í því að fylgjast með krúsímúsísögum á heimasíðum smábarna á barnalandi. hreinlega nenni ekki.
ég veit ekki hvort ég er bara neikvæði gaurinn í kjallaranum eða hvort ég sjái einfaldlega ekki tilganginn í að eyða tíma mínum í að standa í pjáturhjali og vangaveltum um sniðugustu aðferðina til að eiga óaðfinnanlegt heimilislíf og fullkomna tilveru. komin með upp í háls af sjálfshjálparbókaheiminum þar sem vala matt og sirrý vita betur.
ég er líka annað hvort of raunsæ eða of neikvæð eða of heimsk til þess að nenna kirkjum, heilurum og orkuflæðissteinum.
ég fæ kjánahroll yfir halloween, valentínusardeginum og raunveruleikasjónvarpi og mér er ekkert í mun að bæta ,,deit" menningu íslendinga. að auki þykir mér frægt fólk á íslandi ekki merkilegt og þeim fer ört fækkandi sem mér þykja merkilegir erlendis.
hvað er svo að fólki sem setur upp jólaskraut í október?

en eins og ég segi er ég ekki alveg viss hvort ég er of raunsæ/jarðbundin (skilgreiningaratriði), eða ógeðslega neikvæður og fúll karakter yfir höfuð.

(áður en þið veljið fúll karakter langar mig að bæta því við að ég get slett fram kaldhæðnislegum athugasemdum um flest ef ekki allt ofantalið um leið og það berst í tal)

Engin ummæli: