hæbb. öll að hressast. þakka skilning og stuðning á þreytutímum.
annars má ég til með að segja frá því að ég fór í sund í morgun eins og flesta aðra morgna undanfarið, sem er svosem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir það að ég fór ekki beina leið heim eins og ég hef yfirleitt gert.
eftir sundið í dag keyrði ég að þvottabásastöðinni þarna fyrir ofan ikea og keypti mér nokkra peninga í þvottabás nr.1.
eins og oftar er ég hef átt leið um bifreiða-eitthvað í heiminum, var ég eini kvenmaðurinn á svæðinu.
nema hvað, maðurinn í afgreiðslunni horfði skilningsríkum augum á mig á meðan hann útskýrði virkni tækjanna á máli sem hefði betur átt heima í stundinni okkar, enda greinilega vanur því að sumar tegundir af fólki ættu erfiðara með að fatta græjur en aðrar.
ég leyfi mér þó að efast um að búnaðurinn geti vafist fyrir mörgum þar sem að á tækinu sem peningunum er stungið inní er rofi. í kringum rofann eru tölustafir og við hvern tölustaf stendur eitt stikkorð sem vísar til leiðbeininganna á veggjunum. á veggjunum eru flennistór skilti þar sem viðeigandi tölustafir eru ásamt upplýsingum um verkfærið. röðin er eftirfarandi:
1- tjöruleysir, 2- háþrýstiskolun, 3- kústur með sápulöðri og 4- háþrýstiskolun (með bóni ef vill). fyrir 600 krónur fást 10,5 mínútur til þess að ljúka áðurnefndu ferli af. aukamínútur má svo kaupa fyrir 200 krónur (ekkert svo vitlaus bransi það).
nema hvað, stillir svo hver og einn á fyrsta stað á rofanum og spúir tjöruleysinum yfir bílinn, svo er stillt á tvo og þá fer sprautan í gang, varast ber þó að eyða of miklum tíma í hana því hún stoppar ekki sjálfkrafa og auðvelt er að falla í tímaeyðslu á þessu stigi málsins. þriðja stig er ekki heldur tímastillt svo að þeir sem hafa gaman af löðri skyldu vara sig á þeirri gryfjunni. nú og svo lýkur meðferðinni með lokaskolun með bónspúli sem stöðvast um leið og 10,5 mínúturnar eru liðnar, hvort sem bíllinn er hálfur útataður í löðri eða ekki.
nema hvað, ég hefði nú varla nennt að eyða tíma eða orku í að segja svo nákvæmlega frá þessu öllu saman ef ekki væri fyrir þá litlu og glottvænu staðreynd að ég horfði uppá karlana alla fara aðra ferð inn að kaupa sér aukamínútur á meðan mín kona tjöruhreinsaði, spúlaði, löðraði og bónskolaði og átti meira að segja auka mínútu til þess að splæsa á aðra umferð af lokaskolun. geri aðrir betur.
nú og svo setti ég hundraðkall í 9 mínútna ryksuguna og þótti tíminn ansi drjúgur, enda komin í mikið stuð og góðan gír.
eftir aðgerðirnar gekk ég í kringum bílinn og virti afrekið fyrir mér áður en ég leit stolt og sveitt yfir öxlina og brosti meðaumkvunarbrosinu mínu í áttina að pirruðum körlum með vatnslausar sprautur og bíla sem litu út eins og dóttir mín í freyðibaði.
á leiðinni heim setti ég upp montrassalegan svip á hverju einasta rauða ljósi, enda viss um að nýfenginn gljái á bifreiðinni minni færi ekki framhjá neinum.
sem minnir mig á það... 13 dagar í afmæli og hér með vil ég vinsamlegast biðja alla um að fara varlega í kringum afmælisdaginn minn svo að ég geti eytt honum í eintóma gleði.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli