laugardagur, september 15, 2007


í dag er sjálfstæðisdagur mexíkó. í kveld mun forsetinn góla ,,viva mexico!" af svölum stjórnarráðshússins á miðju zocalo-torginu. fyrst gólar hann viva hidalgo, viva morelos, viva la independencia og eitthvað svona fleira. í hvert sinn sem hann segir viva eitthvað hrópar mannhafið á móti viva! og þegar viva mexíkóið kemur í lokin hrópar lýðurinn þrisvar sinnum viva! svona svolítið eins og húrra húrra húrra.
við erum í borginni í dag. erum að hugsa um að skilja afkvæmin eftir hjá tengdaforeldrunum og skella okkur niðrí bæ að kíkja á herra calderón. hann er mis-vinsæll forseti. fylgjendur prd flokksins viðurkenna hann ekki sem forseta, segja hann hafa sigrað með svindli. og þau gera honum lífið leitt. ætli það verði ekki eitthvað baulað á hann í kvöld.

svo er rakarinn dáinn. hann var búinn að klippa og raka karlana hér í hverfi tengdaforeldranna í yfir hálfa öld. svo dó hann bara allt í einu. og nú vex hár tengdaföðurins og tengdamóðurafans villt og galið og þeir eru eins og villuráfandi loðin lítil börn sem vita ekki hvert þau eiga að snúa sér með allt þetta hár. rakarastofa dána rakarans er eins og tímavél. hérna uppi er mynd af henni og ef vel er að gáð má sjá glitta í rakarann sjálfan í felum í hvítu skyrtunni sinni.

Engin ummæli: