föstudagur, febrúar 20, 2004

einu sinni var ekkert verðtryggt. svo fékk fullt af fólki námslánin sín fyrir klink og eignaðist hús ókeypis, og svo varð allt verð-, vísitölu- og gulltryggt og nú gera lán fátt annað en að stækka með tímanum. ég stækka líka með tímanum og til að geta staðið undir kröfum vestrænna neyslusamfélaga, nú þá þarf ég að klæðast í föt sem einhver hefur saumað úr upprunalega náttúrulegum efnum, borga fyrir mat sem aðrir hafa tínt, ræktað, sigtað, síað og drepið fyrir mig, borga fyrir að búa í húsi sem er byggt úr náttúrulegum efnum sem aðrir hafa verkað, borga fólki fyrir að ala börnin mín upp, eiga bíl til að geta komið öllum á rétta uppeldisstofnun tímanlega, borga fyrir nám sem ég fer í til að vera gagnleg á vinnumarkaði þar sem ég svo sinni starfi sem stuðlar að áframhaldandi starfsemi fyrirtækis sem svo skilar mér ákveðinni upphæð í lok mánaðar. sú upphæð hefur svo hringrásina upp á nýtt. mikið djöfulli er ég orðin leið á þessu. ég hata manninn (segi ég og stafa manninn, því kona var það ábyggilega ekki), sem fann upp peninga og lán. stórar svartar kyrkislöngur sem vefja sig hægt og rólega um hálsinn á stóreygðum og saklausum ungmennum sem eru rétt að skríða út úr vernduðum kviði skólakerfisins...og það herðir að og herðir að og sleppir aldrei því lánin eru öll nógu andskoti löng til að endast fram að ellilífeyri sem er þá aftur orðinn svo lágur að endarnir virka alltaf jafn aðskildir.
ég er að hugsa um að klæða mig úr öllu og flytja með familíuna upp í tré í Nýju Gíneu þar sem allt kostar ekkert, peningar eru óþarfi og tíminn líður á eigin forsendum.
mig langar í launahækkun.

Engin ummæli: