góðan og gleðilegan mánudag kæru lesendur. nú er enn ein helgin yfirstaðin og ég mætt aftur með báðar kinnar í rassafarið á bláa skrifborðsstólnum. heftarinn, gatarinn, pennarnir og gulu miðarnir á sínum stað eins og ég hafi aldrei farið í burtu. fékk samt að rífa janúar framanaf dagatalinu mínu. þar fór það...
verð send á power point námskeið í næstu viku. getur verið gott að kunna, en ef það hljómar spennandi í þínum eyrum, þá ert þú mjög líklega ekki mín týpa. ég horfði óvart á hluta af silfri egils um helgina. þar sátu 4 karlmenn og töluðu karlmennsku um fjölmiðlamál. einn af þeim var ólafur teitur (þekkti hann eitt sinn vel), dagur eggertsson (með rómantískugamanmyndahughgrantgreiðsluna) og einhver gráklæddur jakkafati, nú og svo auðvitað þessi rauðhærði með krullurnar. ég nennti nú ósköp lítið að setja mig inní umræðuna, enda hún greinilega komin langt og leiðinlegt um mál sem ég fylgdist með í upphafi en hef fengið yfirdrifið nóg af. ætli vandamálið sé ekki það að það sem við heyrum, sjáum og lesum kemur í mestu magni frá fjölmiðlum, nú og eins og hver önnur starfstétt hefur endalausan áhuga á sjálfri sér er ekki nema von að við heyrum, lesum og sjáum fátt annað en fjölmiðla, um fjölmiðla, frá fjölmiðlum til fjölmiðla. (fyrir utan það að þetta er sosum bölvað brask sem gengur á meðal þessara skratta þarna hinumegin við ofurtekjumúrinn).
nema hvað, upphaflega ástæðan fyrir því að ég nefndi þennan blessaða þátt er þó ekki enn komin fram. hún er hinsvegar sú að ég átti ekki til orð yfir því hvernig blessaðir gestir krulla sátu. hvað er það með karlmenn þegar þeir setjast í stóla og glenna upp á sér klofið (í þessu tilfelli beint framaní myndavélarnar)?! ég hreinlega skil ekki hvaða líkamstjáning er þar á ferðinni og get ekki annað sagt en að mér þyki hún frehehekar hvimleið. ég er kannski að oftúlka en á bak við svona stellingar þykist ég alltaf sjá rembu... hvaða forskeyti sem hún hefur nú.
farin heim í dag. bless á meðan.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli