fimmtudagur, febrúar 26, 2004

fæ lykla á morgun og þá verð ég orðin fullgildur íbúðareigandi. assgoti er ég stolt af sjálfri mér og mínum. svo gerir maður bara fínt og fágað, leigir draslið út og stingur af til útlanda. he he he... það yrðu sosum ekki allir kátir yfir því, hmmm...haaa...
en amk er þetta stór áfangi, ég mun hérmeð hætta að borga leigudrottnum þessa lands og annarra aurinn minn, heldur mun ég greiða mér hann sjálf í eigin vasa og er það hið besta mál.
nú höfum við viku til að flytja. alveg er það merkilegt hvað fámenn og fátæk fjölskylda getur safnað að sér drasli og óþarfa. svo kemur að því að skoða allt kassadótið en þá vakna tilfinningar og maður verður gersamlega fatlaður við að reyna að losa sig við helvítis draslið. ekki bætir svo úr skák að sem tilvonandi íbúðareigandi hef ég látið mig hafa að horfa á innlit-útlit, en þar er stanslaust verið að sýna inn til fólks sem sækir innblástur sinn sennilega beint í líkhús, frystihús, skurðstofur og annað álíka sterílt húsnæði. það er nefnilega "in" núna og það finnst öllum svo smart. svo sit ég framan við skjáinn og horfi inn á skurðstofurnar, slít glyrnurnar frá sjónvarpsskjánum og lít í kringum mig. oftar en ekki fer mér að blöskra mergðin af dótaríi, kertastjökum, myndarömmum, pottaplöntum, boxum, bókum og leikföngum. þá fer mig að langa til að stökkva yfir í minimalismann og pakka öllu inn í krómaðan kassa, en svo þegar þættinum lýkur og judging amy hefst þá færist yfir mig öllu heimilislegri ró og ég sættist við dótaríið mitt. gott ef mig er ekki bara farið að langa í blómótt veggfóður...

Engin ummæli: