þau eru smám saman að kaupa mig. ég er farin að fá hálf-falin semi-bros á göngunum og einstaka þorir að setjast í nágrenni við mig. þeir eru þrír (allt strákar) sem hafa þorað að yrða á mig utan stofunnar.
restin er enn í skápnum.
nemendafélagið skipuleggur djamm fyrir liðið þar sem mæting mín myndi rústa stemmingunni því nú er ég fullorðna fólkið.
ég er yfirvaldið sem má tala um eftir skóla, gagnrýna og kvarta yfir. ég er ekki gjaldgeng í spjallinu þegar allir hópast saman í frímínútum. ég á heima með köllunum og kerlingunum á kennarastofunni þar sem allir drekka kaffi úr krús.
afskipti mín af hópum valda þögn og augnaráðum. ég á ekki heima í tískunni, ég yrði asnaleg ef ég klæddi mig eins og þau. þá yrði hlegið þegar ég er ekki á staðnum.
ég á að vita betur. ég er sú sem er ætlast til að geti svarað öllum spurningunum.
ég er kennarinn.
í lífeyrissjóðnum var ég litla stelpan. kannski ekki alveg barn en þó þessi yngsta sem var ekkert rosalega asnaleg þegar hún hoppaði eða tók nokkur dansspor.
þar mátti ég bulla. þar fannst engum ég vera orðin neitt voðalega stór þó ég verði bráðum þrítug.
kennarar bulla ekki og hér er þrítugt fólk komið ansi framarlega á grafarbakkann.
ég spjallaði aðeins við einn í gær sem var að útskrifast úr grunnskólanum sem ég var í forðum daga. honum fannst geggjað fyndið að ég hefði útskrifast úr þeim sama skóla þegar hann var 2ja ára. mér finnst vera stutt síðan. það er bara hann sem er smábarn. eða hvað?
menningarsjokk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli